Handboltaþjálfarinn Gunnar Magnússon tekur við þjálfun karlaliðs Hauka þegar yfirstandandi tímabili lýkur.
Þetta tilkynnti Hafnarfjarðarfélagið á samfélagsmiðlum sínum en Gunnar, sem er 47 ára gamall, þekkir vel til á Ásvöllum eftir að hafa stýrt liðinu á árunum 2015 til 2020.
Hann gerði Hauka að Íslands- og deildarmeisturum árið 2016 og deildarmeisturum árið 2019 en hann tekur við liðinu af Ásgeiri Erni Hallgrímssyni.
Gunnar stýrir núna Aftureldingu í Mosfellsbæ og gerði liðið að bikarmeisturum árið 2023 en félagið tilkynnti fyrr í þessum mánuði að Gunnar myndi láta af störfum eftir tímabilið.