Georgía hafði betur gegn Bosníu, 28:26, í 3. riðli undankeppni Evrópumóts karla í Tbilisi í Georgíu í dag.
Georgía er nú komin með tvö stig, jafnmörg og Bosnía og Grikkland en Ísland er í toppsætinu með sex stig þegar undankeppnin er hálfnuð og öll liðin hafa spilað þrjá leiki. Er því mikil samkeppni um hvert eða hver liðanna fylgja Íslandi áfram.
Tvö efstu liðin komast á EM og þriðja sætið getur líka gefið EM-keppnisrétt en þangað komast fjögur af þeim átta liðum sem enda í þriðja sæti riðlanna.
Giorgi Tskhovrebadze átti stórleik fyrir Georgíu og skoraði ellefu mörk en hjá Bosníu skoraði Mislav Grgic tíu mörk.