Björgvin Páll: Alls ekki

Björgvin Páll Gústavsson fyrir æfingu í dag.
Björgvin Páll Gústavsson fyrir æfingu í dag. mbl.is/Eyþór

Björgvin Páll Gústavsson markvörður er alltaf jafn spenntur fyrir hverju verkefni með handboltalandsliðinu þó hann verði fertugur á árinu.

Björgvin varði mark Íslands með prýði í sigri á Grikklandi, 34:25, í 3. riðli undankeppni EM í handbolta. Ísland er í toppsæti riðilsins með sex stig, fullt hús, en Grikkland er með tvö stig líkt og Bosnía og Georgía.

Ísland og Grikkland mætast síðan í seinni leik liðanna í Laugardalshöllinni á morgun.

„Skemmtilegasta sem ég geri er að spila landsleiki, hvað þá í höllinni. Eitthvað sem maður ber virðingu fyrir og ég er spenntur að spila fyrir framan fulla höll,“ sagði Björgvin í samtali við mbl.is. 

Tekur hlutverkinu fagnandi

Björgvin er kominn með nýjan lærisvein en ungi markvörðurinn Ísak Steinsson er í hópnum í fjarveru Viktors Gísla Hallgrímssonar. Björgvin er ánægður með innkomu Ísaks.  

„Þetta er æðislegt. Hann er flottur strákur sem er viljugur að læra og duglegur. Þó hann sé ekki mikið yngri en Viktor þá hefur þetta verið mitt hlutverk síðustu ár. 

Ég tek því fagnandi og það er frábært að hjálpa honum í gegnum fyrstu skrefin sín í þessu verkefni. Að fá útileik í Grikklandi og heimaleik í Laugardalshöllinni nýtist vel.“

Menn verða að mæta tilbúnir 

Björgvin segir að orkan hafa verið mikil í íslenska liðinu í leiknum á miðvikudaginn. 

„Ákefðin var mikil og við bárum virðingu fyrir verkefninu. Við spiluðum mjög hraðan leik og refsuðum fyrir öll mistök. 

Við vorum langt frá því að spila óaðfinnanlega en þrátt fyrir það var gott tempó í leiknum og margir sem vildu sýna sig og sanna. 

Það er lítill tími fyrir undirbúning í svona verkefni, menn verða að mæta tilbúnir. Grikkir eru orkumikil ástríðuþjóð og við vissum að við þyrftum að mæta ákveðnir og náðum að sýna gæðamuninn á liðunum.  

Við verðum að gera slíkt hið sama á morgun.“ 

Var ekki að sjá

Það vantar marga lykilmenn í íslenska liðið að þessu sinni vegna meiðsla, en Björgvin segir breiddina vera orðna góða.

„Við erum á ákveðinni vegferð. Það vantaði fullt af leikmönnum í liðið okkar en það var ekki að sjá í okkar leik. Við erum að auka breiddina og búa til enn fleiri góða íslenska handboltamenn.“

Hausverkurinn minnkar ekkert hjá Snorra?

„Nei, alls ekki. Síðustu ár höfum við aukið breiddina í hverri einustu stöðu. Það eykur pressuna á hann. Þeir sem eru ekki í hópi hverju sinni þurfa að sanna sig að og sýna, það á við um mig og hvern annan,“ bætti Björgvin Páll við. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert