Hefur breytt miklu fyrir mig

Kristján Örn Kristjánsson ræðir við mbl.is fyrir æfingu í dag.
Kristján Örn Kristjánsson ræðir við mbl.is fyrir æfingu í dag. mbl.is/Eyþór

Kristján Örn Kristjánsson, landsliðsmaður í handknattleik, er mjög ánægður hjá liði sínu Skanderborg í Danmörku.

Kristján gekk í raðir félagsins frá Aix í Frakklandi fyrir yfirstandandi tímabil en liðið er í þriðja sæti dönsku úrvalsdeildarinnar.

Kristján telur að handboltinn sem Skanderborg spilar, og er almennt kenndur við Danmörku, henti honum mjög vel.

„Þetta er búið að vera frábært. Allt öðruvísi handbolti. Menn spila miklu hraðar, miklu fleiri sendingar, sóknir og hraðaupphlaup. 

Maður þarf að vera í öðruvísi góðu líkamlegu formi. Það er búið að breyta miklu fyrir mig, að vera í góðu formi og geta hlaupið í 60 mínútur, sem hefur ekki alltaf verið staðan. 

Í Frakklandi er þetta miklu hægari og aðeins tæknilegri bolti. Ég er mjög ánægður að fá að upplifa danska boltann og finnst ég hafa staðið mig prýðilega með mínu liði. 

Við erum í þriðja sæti og markmiðið var að vera í efstu fjórum sætunum, við náum því,“ sagði Kristján í samtali við mbl.is. 

Jákvæð breyting fyrir landsliðið

Kristján er í landsliðshópnum hjá Íslandi sem mætir Grikklandi í undankeppni EM í Laugardalshöllinni á morgun. Hann skoraði sex mörk í stórsigri á Grikklandi ytra síðasta miðvikudag. 

Slík lýsing á vel við leikstíl Snorra Steins Guðjónssonar landsliðsþjálfara en Kristján telur að hans leikstíll sé nánast bara týpískur danskur handbolti. 

„Ég myndi segja að hans leikstíll væri danskur handbolti. Þetta snýst um að refsa í hraðaupphlaupum og ef þeir skora að koma með hraða miðju í bakið og halda pressu allan tímann. 

Við erum einmitt að því í Danmörku, halda pressu eins lengi og við getum og hraðanum og tempóinu uppi. 

Mér finnst þetta jákvæð breyting fyrir landsliðið, að vera ekki í þessum hæga bolta sem við vorum í áður fyrr. Ég sé ekkert nema betri tíma fram undan.“

Hvernig finnst þér að spila undir Snorra?

„Mér finnst það frábært. Hann nær vel til okkar og stýrir þessu vel. Þetta virðist allt vera á uppleið,“ bætti Kristján við.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert