Róbert Gunnarsson verður aðstoðarþjálfari karlaliðs Vals í handknattleik frá og með næsta sumri.
Þetta staðfesti Valur í dag en Róbert kemur til félagsins frá Gróttu, þar sem hann er þjálfari karlaliðsins og áður hafði komið fram að hann myndi hætta með liðið að þessu keppnistímabili loknu.
Róbert verður þá aðstoðarmaður Ágústs Þórs Jóhannssonar sem tekur við karlaliði Vals eftir tímabilið þegar Óskar Bjarni Óskarsson hættir með liðið.
Róbert er flestum handboltaáhugamönnum kunnugur en hann er þaulreyndur landsliðsmaður sem lék 276 landsleiki.