Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari karlalandsliðs Íslands í handbolta, kveðst vera spenntur fyrir leiknum gegn Grikklandi í undankeppni EM í Laugardalshöllinni á morgun.
Ísland er í toppsæti riðilsins með sex stig, fullt hús, eftir þrjá leiki en Grikkland er með tvö stig líkt og Bosnía og Georgía. Með sigri gulltryggir Ísland sér þátttökurétt á EM næsta janúar.
Ísland vann fyrri leikinn í Grikklandi með níu mörkum.
„Ég er mjög spenntur fyrir þessu og hlakka alltaf til að spila í höllinni, sama hvort það sé sem leikmaður eða þjálfari.
Troðfull höll og EM sæti í húfi fyrir okkur. Við getum afgreitt það á morgun og það er fínt að gera það þá,“ sagði Snorri Steinn í samtali við mbl.is.
Íslenska liðið valtaði yfir það gríska í fyrri hálfleik og var yfir með tíu mörkum, 19:9, að honum loknum. Snorri var þó hógvær eftir leikinn og sagði að margt væri hægt að bæta.
„Hann var allavega betri en seinni hálfleikurinn. Við finnum alltaf eitthvað sem við getum lagað og fullt sem ég vil laga.
Við gáfum tóninn mjög snemma og þvinguðum þá í erfiða hluti. Þetta er gott lið en ekki endilega það besta í heimi.
Við nýttum okkur þeirra tæknivillur vel og gengum strax á lagið, gáfum engin færi á okkur.
Þeirra von var að byrja leikinn sterkt og setja okkur undir einhverja pressu. Mér fannst við strax taka yfirhöndina og sigldum þessu síðan rólega heim.“
Hvað bætingu viltu sjá á morgun?
„Einhverja taktíska hluti, bæði í vörn og sókn. Við fórum vel yfir það á fundinum. Síðan vil ég sjá okkur stíga meira á bensínið og vera grimmari, fastari fyrir varnarlega og beittari sóknarlega.
Við erum að spila á heimavelli við lið sem við unnum nokkuð þægilega úti. Ég vil alvöru frammistöðu og sjá landslið sem ber virðingu fyrir því að við séum að spila landsleik á heimavelli.
Það er mikið í húfi og fullt af fólki að koma að horfa á okkur. Þetta eru ekki margir heimaleikir sem við fáum í Laugardalshöllinni, menn eiga að njóta þess.“
Allir leikmenn liðsins fengu að spila í Grikklandi. Snorri segir það fara eftir gangi leiksins hvort sú staða komi upp aftur.
„Það fer alltaf eftir gangi leiksins. Þú ert alltaf með einhver plön í hausnum og síðan er það komið út um gluggann áður en þú veist af.
Fyrst og fremst nálgast ég leikinn til að vinna hann. Ég vil frammistöðu og að við höldum áfram að þróa okkar leik. Þetta er ekki til þess gert til að gefa einhverjum mínútur.
Þeir sem standa sig spila yfirleitt mest, síðan sé ég hvernig leikurinn þróast. Númer eitt, tvö og þrjú er að vinna leikinn, þó það væri á sömu sjö mönnunum þá myndi ég gera ég það,“ bætti Snorri við.