Snorri ómyrkur í máli

Snorri Steinn Guðjónsson fyrir æfingu í dag.
Snorri Steinn Guðjónsson fyrir æfingu í dag. mbl.is/Eyþór

Íslenska karlalandsliðið í handbolta vann Grikkland nokkuð sannfærandi, 34:25, í undankeppni EM í handbolta í Grikklandi á miðvikudaginn var.

Ísland mun síðan mæta Grikklandi í Laugardalshöllinni á morgun klukkan 16 en íslenska liðið er með sex stig, fullt hús, á toppi 3. riðils undankeppninnar. Grikkland, Bosnía og Georgía fylgja síðan með tvö hvert.

Það vantar marga lykilmenn í íslenska landsliðið, þar á meðal Aron Pálmarsson, Ómar Inga Magnússon, Gísla Þorgeir Kristjánsson og Elvar Örn Jónsson.

Margir leikmenn sem hafa verið í aukahlutverki stigu inn í þeirra fjarveru. Breiddin er mjög mikil hjá íslenska liðinu og Snorri var aðeins spurður út í hana af mbl.is.

Verður hausverkurinn ekki bara meiri?

„Jú, en þú vilt það líka, að einhverju leyti. Við erum með fína breidd og þegar aðstæður eru svona þá býður það upp á tækifæri fyrir aðra. Eins og gengur og gerist þá nýta menn það, sumir betur en aðrir,“ svaraði Snorri ómyrkur í máli.

„Þetta er ákveðið verkefni og hópurinn í dag. Ég sem þjálfari vil bara að leikmennirnir sem eru hér séu frábærir og standi sig vel. Svo þegar kemur að því að velja næsta hóp þá tökum við aftur stöðuna á hverjir eru heilir, meiddir og gefa kost á sér. Síðan reyni ég eftir bestu sannfæringu að velja sterkasta hópinn þegar að því kemur,“ bætti Snorri við. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert