Fram hafði betur gegn Val, 28:26, í toppslag í úrvalsdeild kvenna í handknattleik í Úlfarsárdal í kvöld.
Með sigrinum kom Fram í veg fyrir það að Valur yrði deildarmeistari. Valur er þó áfram á toppi deildarinnar með 32 stig en Fram er í öðru sæti með 28 stig þegar tveir leikir eru eftir.
Valskonur byrjuðu betur og voru mest þrem mörkum yfir í fyrri hálfleik, 4:1. Framarar náðu þó að jafna metin og var staðan 12:12 í hálfleik.
Áfram var jafnræði með liðunum í síðari hálfleik. Þegar rúmar 10 mínútur voru eftir af leiknum var staðan 24:24.
Eftir æsispennandi lokamínútur var það Fram sem bar sigur úr býtum, 28:26.
Alfa Brá Hagalín og Valgerður Arna skoruðu sex mörk hvor fyrir Fram. Landsliðskonan Thea Imani Sturludóttir var markahæst í leiknum með tíu mörk.