Það var mikið fagnað í Laugardalshöll í dag þegar Ísak Steinsson kom inn á í mark Íslands fyrir Björgvin Pál Gústavsson. Ísak átti ágæta innkomu og varði eitt skot líkt og í fyrri leiknum á móti Grikklandi á miðvikudag. Spurður út í innkomuna í dag og tilfinninguna þegar áhorfendur fögnuðu honum sagði Ísak þetta.
„Ég er mjög ánægður og þetta var alveg geggjað að fá að koma inn á og fá þessar móttökur frá stúkunni. Ég á erfitt með að lýsa því.“
Þú færð alvöru móttökur þegar þú kemur inn á og síðan verðu eitt skot og þá færðu ennþá meiri fagnaðarlæti frá íslensku stuðningsmönnunum. Hvað fór í gegnum hugann á ungum markverði sem er að taka þátt í sínu fyrsta alvöru verkefni á heimavelli líkt og í dag?
„Ég var mjög stressaður þegar ég kom inn á. Ég hef aldrei upplifað þetta áður, að spila fyrir framan svona stúku sem tekur svona vel á móti mér.“
Er mikið sem fer í reynslubankann við það að taka þátt í þessum landsleikjaglugga?
„Já, bara það að fá að vera með liðinu, æfa með þeim, taka þátt í fundum og fylgjast með hér á bekknum til að sjá hvað Bjöggi er að gera er gríðarleg reynsla fyrir mig.“
Er eitthvað sérstakt sem Björgvin Páll hefur kennt þér á þessum dögum?
„Já, bara að vera rólegur, ekki stressa mig. Gera það sem ég er góður í og halda áfram.“
Þitt markmið hlýtur að vera að komast með á EM í janúar, ekki satt?
„Jú auðvitað en bæði Björgvin og Viktor eru frábærir ásamt því að það eru fleiri mjög góðir íslenskir markverðir sem vilja það sama. Þetta er allavegana góð byrjun og síðan sjáum hvað framhaldið er,“ sagði Ísak í samtali við mbl.is.