Íslenska karlalandsliðið í handbolta er komið á EM 2026 eftir öruggan sigur á Grikklandi 33:21 í Laugardalshöll í dag.
Ísland er með 8 stig eftir fjóra leiki en Grikkland, Bosnía og Georgía eru með tvö stig hvert. Bosnía og Georgía mætast annað kvöld.
Það var ekki að sjá að íslenska liðið vantaði lykilmenn í hópinn í dag. Íslenska liðið byrjaði leikinn með miklum látum og skoraði fyrstu 6 mörk leiksins. Þá kom fínn kafli hjá gríska liðinu sem náði að minnka muninn niður í 3 mörk í stöðunni 7:4.
Íslendingar fóru þá í að byggja upp gott forskot og náðu mest 9 marka forskoti í stöðunum 15:6 og 16:7. Ljósið í myrkrinu hjá Grikkjum í fyrri hálfleik var Petros Boukovinas en hann varði 10 skot í fyrri hálfleik.
Grikkir náðu að saxa á forskot Íslands áður en fyrri hálfleik lauk og var staðan eftir fyrri hálfleik 16:9 fyrir Íslandi, 7 marka munur.
Sigvaldi Björn Guðjónsson, Stiven Tobar Valencia og Haukur Þrastason voru allir með 3 mörk fyrir Ísland í fyrri hálfleik. Björgvin Páll Gústavsson varði 10 skot í fyrri hálfleik fyrir Ísland.
Hjá Grikkjum skoraði Nikolaos Kritikos 3 mörk, þar af eitt úr víti. Eins og fyrr segir varði Petros Boukovinas 10 skot í fyrri hálfleik.
Íslenska liðið hélt uppteknum hætti í seinni hálfleik og náði fljótlega aftur 9 marka forskoti í leiknum í stöðunni 19:10 fyrir Ísland. Það virtist síðan ætla að verða erfitt fyrir íslenska liðið að rjúfa 10 marka forskotið.
Það tókst þegar Ýmir Örn Gíslason skoraði sitt fyrsta mark og staðan var orðin 23:13 fyrir Íslandi. Íslenska liðið náði síðan 12 marka forskoti í stöðunni 26:14 og var 13 mínútur eftir af leiknum. Þá tók gríska liðið leikhlé en það má segja að á þessum tímapunkti hafi sigurinn verið vís fyrir Ísland.
Gríska liðið minnkaði muninn niður í 9 mörk í stöðunni 28:19 og var íslenska liðið hálfkærulaust á þessum tímapunkti. Það sætti Snorri Steinn Guðjonsson sig ekki við og tók leikhlé sem heldur betur hefur virkað því íslenska liðið skoraði strax þrjú mörk í röð og komst 12 mörkum yfir í stöðunni 31:19 fyrir Íslandi og aðeins þrjár og hálf mínúta eftir af leiknum.
Íslenska liðið gaf ekkert eftir á lokamínútum leiksins og vann að lokum 12 marka sigur 33:21 og er komið á sitt fjórtánda Evrópumót í röð.
Til hamingju Ísland.
Janus Daði Smárason og Andri Már Rúnarsson skoruðu 4 mörk hvor fyrir Ísland. Björgvin Páll Gústavsson varði 14 skot og Ísak Steinsson 1 skot.
Evangelos Arampatzis skoraði 5 mörk fyrir Grikkland og Petros Boukovinas varði 15 skot fyrir Grikki.