Talar fallega um Björgvin Pál

Ísak Steinsson.
Ísak Steinsson. mbl.is/Eyþór

Markvörðurinn Ísak Steinsson lék sinn fyrsta landsleik í sigri Íslands á Grikklandi, 34:25, í Grikklandi síðasta miðvikudag.

Ísland mætir Grikklandi í Laugardalshöllinni í dag klukkan 16 en íslenska liðið er í topp­sæti 3. riðils­ins í undankeppni EM í handknattleik með sex stig, fullt hús, eft­ir þrjá leiki en Grikk­land er með tvö stig líkt og Bosn­ía og Georgía. Með sigri gull­trygg­ir Ísland sér þátt­töku­rétt á EM næsta janú­ar.

Ísak, sem er aðeins 19 ára gamall og ver mark Drammen í Noregi, kom inn í landsliðshópinn í fjarveru Viktors Gísla Hallgrímssonar.

Hann fékk að koma inn á undir lok leiks en segir það einungis vera bónus þar sem hann læri svo mikið af því að vera í kringum landsliðsmennina.

„Þetta var mjög skemmtilegt. Að fá að vera með liðinu úti, æfa, spila og funda með þessum leikmönnum er bara frábært. 

Þetta er mjög spennandi fyrir mig. Þetta eru með bestu leikmönnum í heimi og að vera í marki með Björgvini er frábært, hann hefur upplifað allt og að fá að læra af honum er frábært. Hann er góð fyrirmynd í þessu,“ sagði Ísak í samtali við mbl.is. 

Býstu við því að fá aftur einhverjar mínútur í Laugardalshöllinni?

„Ég veit það ekki, allt núna er bara bónus fyrir mig.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert