Handknattleikskonan Aldís Ásta Heimisdóttir var í lykilhlutverki hjá Skara í dag þegar lið hennar vann öruggan útisigur á Hallby, 36:28, í sænsku úrvalsdeildinni.
Aldís átti sjö stoðsendingar í leiknum, langflestar í liði Skara, og skoraði auk þess tvö mörk fyrir liðið.
Skara er í öðru sæti eftir 21 umferð af 22 með 30 stig, einu stigi á eftir toppliði Sävehof. Eftir 22 umferðir tekur við úrslitakeppni átta liða um sænska meistaratitilinn og þar gæti Skara mætt hinu Íslendingaliðinu í deildinni, Kristianstad, sem er í sjöunda sæti.
Þær Jóhanna Margrét Sigurðardóttir og Berta Rut Harðardóttir voru ekki á meðal markaskorara Kristianstad í gær þegar liðið tapaði 33:26 fyrir Skövde á útivelli.