Georgía á enn möguleika á að vinna þriðja riðil í undankeppni Evrópumóts karla í handknattleik eftir góðan útisigur gegn Bosníu í kvöld, 22:20.
Georgíumenn eru þá komnir með fjögur stig í öðru sæti en Ísland er með átta stig á toppnum og hefur þegar tryggt sér sæti á EM. Bosnía og Grikkland eru með tvö stig hvort.
Georgía, Bosnía og Grikkland eru fyrst og fremst í baráttu um annað sætið sem gefur keppnisrétt á EM. En tapi íslenska liðið fyrir Bosníu og Georgíu í síðustu tveimur umferðunum gæti Georgía stolið efsta sætinu með því að vinna líka Grikki á heimavelli á þessum lokaspretti.
Þar sem Ísland vann útileikinn gegn Georgíu 30:25 þyrftu Georgíumenn að vinna sex marka sigur í Laugardalshöllinni til að verða óvæntir sigurvegarar í riðlinum.