Mikilvægur sigur ÍBV í fallbaráttunni

Birna Berg Haraldsdóttir skoraði átta mörk í dag.
Birna Berg Haraldsdóttir skoraði átta mörk í dag. mbl.is/Hákon Pálsson

ÍBV sigraði Stjörnuna 24:18 í 18. umferð úrvalsdeildar kvenna í handknattleik í fallslag í Garðabæ í dag. 

ÍBV er enn þá í sjöunda sæti, fallsæti, en er núna aðeins einu stigi á eftir Stjörnunni sem er með tíu stig í sjötta sæti.

Stjarnan skoraði fyrsta mark leiksins sem var eina skiptið sem liðið var yfir í leiknum en staðan var 9:6 fyrir ÍBV í hálfleik. Gestirnir voru með öll tök á leiknum í seinni hálfleik og voru sex mörkum yfir þegar tíu mínútur voru eftir af leiknum og leikurinn endaði með 24:18-sigri ÍBV.

Birna Berg Haraldsdóttir skoraði átta mörk fyrir ÍBV og þær Sunna Jónsdóttir og Ásdís Halla Hjarðar bættu við fimm mörkum hvor.  Marta Wawrzykowska varði 10 skot, 39% markvarsla, og Bernódía Sif Sigurðardóttir varði tvö af fjórum skotum sem hún fékk á sig.

Embla Steindórsdóttir var markahæst hjá Stjörnunni með sjö mörk og Tinna Sigurrós Traustadóttir skoraði þrjú. Hrafnhildur Anna Þorleifsdóttir varði 12 skot og var með 39% markvörslu.

Þrjár umferðir eru eftir af deildinni en ÍBV mætir næst Selfossi, svo Fram og að lokum Haukum. Stjarnan mætir Gróttu, Selfossi og Val.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert