Byrjað að selja miða á leiki Íslands

Kristianstad Arena verður á ný keppnisstaður Íslands í riðlakeppni EM.
Kristianstad Arena verður á ný keppnisstaður Íslands í riðlakeppni EM. mbl.is/Kristinn Magnússon

Svíar hafa óskað Íslendingum til hamingju með að tryggja sér sæti á EM karla í handknattleik 2026 og eru þegar byrjaðir að selja miða á leikina í Kristianstad.

Svíar gátu sem ein þriggja gestgjafaþjóðanna valið eina aðra þjóð til að leika í riðli í Svíþjóð. Þeir völdu Íslendinga sem munu leika í Kristianstad í riðlakeppni mótsins á meðan sænska landsliðið verður sjálft í riðli í Malmö.

Handknattleikssamband Íslands skýrði frá því í dag að sænskir mótshaldarar hefðu sent frá sér tilkynningu í morgun þar sem þeir óskuðu Íslandi til hamingju með að vera fyrsta þjóðin sem tryggði sér keppnisrétt á EM 2026.

Miðasalan er hafin og fer fram í gegnum mótshaldarana en HSÍ tekur fram að sambandið hafi enga milligöngu um sölu á miðum fyrir mótið. 

Ísland mun leika í riðlakeppninni í Kristianstad 16., 18. og 20. janúar og hægt er að kaupa miðana þó mótherjar liggi ekki fyrir.

Tengill á miðasöluna 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert