Aron færir sig um set við Persaflóann

Aron Kristjánsson á hliðarlínunni hjá Barein á HM fyrr á …
Aron Kristjánsson á hliðarlínunni hjá Barein á HM fyrr á þessu ári. mbl.is/Eyþór Árnason

Aron Kristjánsson hefur verið ráðinn landsliðsþjálfari Kúveit í handknattleik karla en hann hefur stýrt landsliði Barein undanfarin ár.

Aron er 52 ára gamall og á rúmlega tuttugu ára þjálfaraferil að baki en hann var m.a. þjálfari íslenska karlalandsliðsins á árunum 2012 til 2016. Hann hefur lengst af þjálfað Hauka en einnig dönsku liðin Aalborg, Kolding og Skjern og þýska liðið Hannover-Burgdorf.

Aron tók við liði Barein árið 2018 og hefur stýrt því nær óslitið síðan.

Kúveit hafnaði í fjórða sæti á Asíumótinu á síðasta ár, eftir tap gegn Aroni og hans mönnum í úrslitaleik um bronsið, 26:17. Áður höfðu liðin skilið jöfn í riðlakeppninni og Kúveit gerði þar einnig jafntefli við Suður-Kóreu og vann örugga sigra gegn Írak, Taívan og Óman en tapaði fyrir Katar, 24:20.

Kúveit hafnaði í 27. sæti af 32 liðum á heimsmeistaramótinu í janúar á þessu ári en liðið lék á HM í fyrsta skipti í sextán ár. Lið Kúveit var fastagestur á HM á árunum 1995 til 2009 og hafnaði m.a. í 20. sæti af 24 liðum á HM á Íslandi árið 1995.

Liðið varð Asíumeistari fjórum sinnum frá 1995 til 2006 en árangurinn á mótinu í fyrra, fjórða sæti, var besti árangur liðsins í sextán ár.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert