Þýski handboltamaðurinn Nils Kretschmer hefur verið úrskurðaður í fjögurra ára keppnisbann af þýsku deildakeppninni eftir að hann féll á lyfjaprófi í september síðastliðnum.
Kretschmer, sem er 32 ára, fór í lyfjapróf þann 29. september eftir leik með Grosswallstadt í þýsku B-deildinni.
Lyfjaeftirlit Þýskalands, NADA, framkvæmdi prófið og leiddi þvagprufa í ljós óvenju hátt testosterónmagn. Var hann tafarlaust úrskurðaður í tímabundið bann og verður sá tími tekinn með í fjögurra ára banninu.
Grosswallstadt sagði samningi Kretschmer upp eftir að hann var úrskurðaður í tímabundið bann.
Í tilkynningu frá þýsku deildakeppninni kemur fram að Kretschmer hafi strax viðurkennt sök, sem veiti möguleika á því að bannið verði stytt um eitt ár. Hefur hann 20 daga til þess að gefa þýsku deildakeppninni svar um hvort Kretcshmer samþykki refsinguna eða áfrýji.
Áfrýji hann mun nefnd þýska handknattleikssambandsins um lyfjamisferli taka málið fyrir.