Fjölnir er fallinn úr úrvalsdeild karla í handbolta eftir tap gegn Aftureldingu í 21. umferð deildarinnar í Mosfellsbæ í kvöld.
Leiknum lauk með stórsigri Aftureldingar, 34:20, þar sem Árni Bragi Eyjólfsson var markahæstur hjá Mosfellingum með sjö mörk.
Fjölnir þurfti á sigri að halda í síðustu tveimur leikjum sínum til þess að eiga von um að bjarga sér frá falli en liðið er í tólfta og neðsta sætinu með 8 stig fyrir lokaumferðina, þremur stigum frá öruggu sæti.
Afturelding er í fjórða sætinu með 29 stig og tryggði sér heimavallarréttinn í úrslitakeppninni með sigrinum.
Það ræðst í lokaumferðinni hvort það verði Grótta eða ÍR sem fylgir Fjölni niður í 1. deildina en bæði lið geta ennþá fallið.
ÍR hafði betur gegn Stjörnunni, 34:32, í Skógarseli þar sem Baldur Fritz Bjarnason og Bernard Kristján Darkoh voru markahæstir hjá ÍR-ingum með ellefu mörk. Þá átti Ólafur Rafn Gíslason stórleik í marki ÍR, varði 18 skot og var með 36 prósent markvörslu.
ÍR-ingar eru með 13 stig í tíunda sætinu en ÍR mætir FH, sem getur tryggt sér deildarmeistaratitilinn með sigri, í lokaumferðinni í Kaplakrika.
Stjarnan er í sjöunda sætinu með 20 stig en getur með sigri í lokaumferðinni komist upp fyrir ÍBV og í sjötta sætið.
Á Ásvöllum gerðu Haukar og Grótta jafntefli, 27:27, en Grótta var með tveggja marka forskot þegar fimm mínútur voru til leiksloka.
Grótta er með 11 stig í ellefta og næstneðsta sætinu, tveimur stigum minna en ÍR, en Grótta tekur á móti Aftureldingu í lokaumferðinni. Ef ÍR og Grótta enda jöfn að stigum fellur ÍR þar sem Grótta er með betri innbyrðisviðureign á ÍR.
Haukar eru með 25 stig í fimmta sætinu og geta hvorki endað ofar, né neðar, í töflunni.
Skarphéðinn Ívar Einarsson var markahæstur hjá Haukum með níu mörk en Ágúst Ingi Óskarsson var markahæstur hjá Gróttu, einnig með níu mörk.
Íslandsmeistarar FH eru með pálmann í höndunum fyrir lokaumferðina eftir dramatískan sigur gegn KA á Akureyri, 26:25, þar sem Jóhannes Berg Andrason tryggði FH sigurinn með marki þegar þrjár sekúndur voru til leiksloka.
FH er með 33 stig í efsta sætinu en KA er í níunda sætinu með 13 stig og missti með tapinu af sæti í úrslitakeppninni.
Jóhannes Berg var markahæstur hjá Hafnfirðingum með átta mörk en Dagur Árni Heimisson skoraði sjö mörk fyrir KA.
Valsmenn eiga ennþá möguleika á því að standa uppi sem deildarmeistarar eftir stórsigur gegn HK í Kórnum í Kópavogi, 33:25.
Valur er með 32 stig, stigi minna en FH, fyrir lokaumferðina en Valsmenn taka á móti Haukum í lokaumferðinni. Þrátt fyrir tapið er HK komið í úrslitakeppnina eftir tap KA en HK er með 16 stig í áttunda sætinu og getur ekki endað ofar, né neðar.
Ísak Gústafsson, Úlfar Páll Monsi Þórðarson og Magnús Óli Magnússon skoruðu fjögur mörk hver fyrir Val og þá varði Björgvin Páll Gústavsson 13 skot í markinu og var með 43 prósent markvörslu. Hjörtur Ingi Halldórsson var markahæstur hjá HK með fimm mörk.
Þá styrkti Fram stöðu sína í þriðja sætinu með öruggum sigri gegn ÍBV, 43:36, í Úlfarsárdal.
Framarar eru með 31 stig í þriðja sætinu og heimsækja Stjörnuna í lokaumferðinni. ÍBV er með 21 stig í sjötta sætinu en Eyjamenn taka á móti HK í lokaumferðinni.
Reynir Þór Stefánsson var markahæstur Framara með tíu mörk og Marel Baldvinsson skoraði sjö. Kristófer Ísak Bárðarson skoraði ellefu mörk fyrir ÍBV.