Hannover-Burgdorf komst í kvöld á topp þýsku 1. deildar karla í handknattleik með góðum útisigri gegn Rhein-Neckar Löwen á meðan topplið Melsungen steinlá gegn Hamburg á útivelli.
Melsungen hefur verið efst í sterkustu deild heims í nær allan vetur en hefur orðið fyrir miklum skakkaföllum vegna meiðsla og er m.a. án bæði Elvars Arnar Jónssonar og Arnars Freys Arnarssonar um þessar mundir.
Hamburg vann leik liðanna, 42:32, en Hamborgarliðið var í ellefta sæti fyrir leikinn.
Hannover-Burgdorf, með Heiðmar Felixson sem aðstoðarþjálfara, nýtti tækifærið og náði eins stigs forystu með sigri á Löwen, 36:35.
Baráttan um þýska meistaratitilinn virðist því ætla að verða einstaklega jöfn. Hannover-Burgdorf er með 37 stig á toppnum, Melsungen 36, Füchse Berlín 35, Kiel 34, Flensburg 31 og Magdeburg 29 stig en meistaralið Magdeburg á inni þrjá til fjóra leiki á hin liðin.