Íslendingalið Karlskrona vann öruggan sigur á Amo, 33:25, í lokaumferð sænsku úrvalsdeildarinnar í handknattleik karla í gærkvöldi. Þar skoruðu íslenskir leikmenn liðanna alls átta mörk.
Arnar Birkir Hálfdánsson fór þar fremstur í flokki með fimm mörk fyrir Amo og átti auk þess fjórar stoðsendingar. Ólafur Andrés Guðmundsson skoraði þá tvö mörk fyrir Karlskrona og Dagur Sverrir Kristjánsson eitt.
Phil Döhler, fyrrverandi markvörður FH sem talar fyrirtaks íslensku, fór þá á kostum í marki Karlskrona og varði 11 skot, sem gerði 42 prósenta markvörslu.
Einar Bragi Aðalsteinsson skoraði eitt mark og átti þrjár stoðsendingar í 35:29-sigri Kristianstad á Guif en Tryggvi Þórisson átti eina stoðsendingu fyrir Sävehof í 29:28-sigri á Hammarby.
Ljóst er að Ystad er deildarmeistari og Kristianstad hafnar í öðru sæti. Karlskrona varð í fjórða sæti og Sävehof hafnaði í fimmta sæti. Þrjú Íslendingalið fara því í úrslitakeppnina um sænska meistaratitilinn.
Karlskrona og Sävehof mætast í átta liða úrslitunum og Kristianstad mætir Hammarby, sem endaði í sjöunda sæti.
Amo hafnaði í tólfta sæti og fer í umspil með tveimur öðrum liðum úr úrvalsdeildinni ásamt þremur liðum úr B-deildinni um sæti í úrvalsdeild.