Markéta Jerábková, ein besta handknattleikskona heims, tilkynnti í desember síðastliðnum að hún væri barnshafandi og myndi því taka sér hlé frá íþróttinni. Í fyrradag skýrði Jerábková frá því að hún hafi misst fóstrið.
Jerábková átti von á sínu fyrsta barni í sumar ásamt eiginmanni sínum Tomás.
„Ég finn fyrir vonleysi og bjargarleysi, depurð og ást, eins miklum sársauka og hægt er. Litli engillinn minn,“ skrifaði Jerábková á Instagramaðgangi sínum á miðvikudag og birti ljósmynd af maga sínum.
Hún er 29 ára gömul og hefur um langt árabil verið á meðal bestu handknattleikskvenna heims. Vann Jerábkova Meistaradeild Evrópu með Vipers Kristiansand árin 2022 og 2023 og var valin besti leikmaður úrslitahelgar Meistaradeildarinnar 2022.
Tékkinn leikur í stöðu vinstri skyttu og er sem stendur samningsbundin danska félaginu Ikast.