Ída Margrét Stefánsdóttir var markahæst hjá Gróttu þegar liðið tók á móti Stjörnunni í 19. umferð úrvalsdeildar kvenna í handbolta á Seltjarnarnesi í kvöld.
Leiknum lauk með öruggum sigri Gróttu, 30:21, en Ída Margrét gerði sér lítið fyrir og skoraði átta mörk í leiknum.
Þetta var fyrsti sigur Gróttu í deildinni síðan 9. nóvember en liðið er áfram í áttunda og neðsta sætinu með 8 stig, stigi minna en ÍBV en ÍBV á leik til góða á Gróttu og mætir Selfossi í Eyjum á morgun.
Stjarnan er í sjötta sætinu með 10 stig og hefur nú tapað sjö leikjum í röð en Stjarnan, ÍBV og Grótta geta öll fallið þegar tveimur umferðum er ólokið.
Mörk Gróttu: Ída Margrét Stefánsdóttir 8, Karlotta Óskarsdóttir 6, Katrín Anna Ásmundsdóttir 5, Edda Steingrímsdóttir 4, Rut Bernódusdóttir 4, Katrín S. Thorsteinsson 2, Katrín Helga Sigurbergsdóttir 1.
Varin skot: Andrea Gunnlaugsdóttir 6.
Mörk Stjörnunnar: Guðmunda Auður Guðjónsdóttir 5, Embla Steindórsdóttir 5, Anna Karen Hansdóttir 4, Eva Björk Davíðsdóttir 3, Brynja Katrín Benediktsdóttir 2, Bryndís Hulda Ómarsdóttir 1, Vigdís Anna Hjartardóttir 1.
Varin skot: Hrafnhildur Anna Þorleifsdóttir 8.