Bjarki í banastuði og fleiri flottir í kvöld

Elliði Snær Viðarsson og Bjarki Már Elísson voru báðir drjúgir …
Elliði Snær Viðarsson og Bjarki Már Elísson voru báðir drjúgir fyrir sín lið í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Íslenskir handknattleiksmenn létu að sér kveða víða í Evrópu í kvöld, meðal annars í Ungverjalandi, Sviss, Þýskalandi og Austurríki.

Bjarki Már Elísson er kominn aftur á fulla ferð með Vezsprém sem vann stórsigur á Györ, 44:33, í ungversku deildinni. Bjarki skoraði 7 mörk en Aron Pálmarsson lék ekki með Veszprém sem er sem fyrr á toppi deildarinnar, tveimur stigum á undan Pick Szeged.

Tumi Rúnarsson var drjúgur með Alpla Hard sem tryggði sér sæti í undanúrslitum austurríska bikarsins með heimasigri á Aon Fivers, 37:31. Tumi skoraði sex mörk í leiknum en Hannes Jón Jónsson þjálfar lið Alpla Hard.

Elliði Snær Viðarsson skoraði fimm mörk fyrir Gummersbach í útisigri gegn Erlangen í þýsku 1. deildinni, 31:24. Viggó Kristjánsson skoraði fjögur mörk fyrir Erlangen. Teitur Örn Einarsson lék ekki með Gummersbach vegna meiðsla en liðið, undir stjórn Guðjóns Vals Sigurðssonar, er í sjöunda sæti deildarinnar.

Óðinn Þór Ríkharðsson skoraði sex mörk fyrir Kadetten sem vann Pfadi Winterthur, 34:30, á útivelli í svissnesku A-deildinni. Kadetten er með yfirburðaforystu og er þrettán stigum á undan næsta liði í deildinni.

Viktor Gísli Hallgrímsson var á ný í marki Wisla Plock, eftir fjarveru vegna meiðsla, þegar liðið vann stórsigur á Kalisz, 37:21, á útivelli í pólsku úrvalsdeildinni. Wisla og Kielce eru langefst í deildinni, bæði með 23 sigra í 24 leikjum þegar tveimur umferðum er ólokið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert