Haukar fara með forystu til Bosníu

Skarphéðinn Ívar Einarsson skýtur í dag.
Skarphéðinn Ívar Einarsson skýtur í dag. mbl.is/Ólafur Árdal

Haukar tóku á móti bosníska liðinu Izvidac í átta liða úrslitum Evrópubikars karla í handbolta í dag og lauk leiknum með sigri Hauka 30:27. Var þetta fyrri leikur liðanna en sá síðari fer fram um næstu helgi í Bosníu.

Izvidac hefur slegið út lið frá Ítalíu, Úkraínu og Kýpur í keppninni í vetur á meðan Haukar hafa sigrað mótherja frá Finnlandi, Aserbaídsjan og Slóveníu.

Gestirnir byrjuðu leikinn betur í dag og komust 2:0 yfir. Haukar jöfnuðu í 2:2 og komust síðan yfir í stöðunni 5:4. Eftir það leiddu Haukar leikinn þar sem eftir lifði hálfleiksins.

Aron Rafn Eðvarðsson átti stórkostlegan fyrri hálfleik fyrir Hauka og varði 14 skot, þar af var eina vítaskot Izcidac í fyrri hálfleik. Haukar náðu mest 4 marka forskoti í stöðunni 13:9 en gestirnir frá Bosníu náðu að minnka þann mun í 3 mörk fyrir hálfleik. Staðan í hálfleik var 15:12 fyrir Hauka.

Það verður að segjast að Haukar voru klaufar í sóknarleik sínum og áttu hornamennirnir í miklum vandræðum með að skora framhjá Haris Suljevic sem varði 9 skot í fyrri hálfleik. Hefðu Haukamenn átt að byggja upp stærra forskot með betri skotnýtingu.

Birkir Snær Steinsson og Skarphéðinn Ívar Einarsson skoruðu 4 mörk hvor fyrir Hauka í fyrri hálfleik.

Diano Neris Cesko skoraði 5 mörk fyrir Izvidac.

Haukaliðið spilaði kaflaskiptan leik í seinni hálfleik. Haukar byrjuðu á því að ná upp 5 marka forskoti í stöðunni 19:14 og 20:15. Eftir það kom afar slakur leikkafli hjá Haukum sem gestirnir notfærðu vel og skoruðu 3 mörk í röð og staðan orðin 20:18.

Haukar löguðu leik sinn örlítið og náðu upp þriggja marka forskoti sem Izvidac minnkaði jafn harðan í tvö mörk. Þannig gekk seinni hálfleikurinn allt þangað til 3 mínútur voru eftir en þá komust Haukamenn í hraðaupphlaup og skoraði Andri Fannar Elísson úr því. Munurinn var kominn í 4 mörk í stöðunni 30:26.

Þegar tvær mínútur voru eftir af leiknum var Skarphéðni Ívari Einarssyni vísað út af í 2 mínútur og fengu gestirnir víti. Úr því skoraði Milan Vuksic og staðan 30:27.

Haukum tókst ekki að skora úr næstu sókn og þegar 25 sekúndur voru eftir tóku gestirnir leikhlé enda skipti hvert mark máli fyrir seinni leikinn. Gestirnir misstu boltann og tók Ásgeir Örn þjálfari Hauka þá strax leikhlé en þá voru einungis 4 sekúndur eftir.

Haukum tókst ekki að notfæra sér þessar 4 sekúndur og fara Haukar því með 3 marka forskot í seinni leikinn sem er eftir viku.

Skarphéðinn Ívar Einarsson skoraði 6 mörk fyrir Hauka og Aron Rafn Eðvarðsson varði 17 skot, þar af eitt víti.

Diano Neris Cesko skoraði 9 mörk fyrir Izvidac og varði Hari Suljevic 11 skot.

Liðin mætast aftur í Bosníu um næstu helgi.

Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

Haukar 30:27 Izvidac opna loka
60. mín. Birkir Snær Steinsson (Haukar) skýtur yfir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert