Hef bullandi trú á að við náum því

Geir Guðmundsson með boltann í leiknum gegn Izvidac á Ásvöllum …
Geir Guðmundsson með boltann í leiknum gegn Izvidac á Ásvöllum í dag. mbl.is/Ólafur Árdal

Haukar unnu þriggja marka sigur á bosníska liðinu Izvidac 30:27 á Ásvöllum í dag. Var þetta fyrri leikur liðanna í 8 liða úrslitum Evrópubikarsins í handbolta.

Það bíður því erfitt verkefni fyrir Hauka að verja forskotið í Bosníu eftir viku. Ásgeir Örn Hallgrímsson þjálfari Hauka hafði þó fulla trú á að það takist þegar mbl.is ræddi við hann strax eftir leik.

„Fyrst og fremst er ég ánægður með sigurinn og ég er ánægður að mestu með frammistöðuna og margt í okkar leik. Ég viðurkenni þó að þegar við náum 5 marka forskoti þá vorum við í stöðu sem ég hefði viljað nýta betur en miðað við þróun leiksins held ég að við getum bara verið sáttir.

Við vorum að spila við hörkulið. Þetta eru stórar og þungar skyttur sem kunna að dúndra á markið og taktískt voru þeir mjög klókir. Þeir spila langar sóknir og enda þær alltaf með alvöru skotum. Alvöru lið."

Nú er slétt vika í að þið leikið aftur gegn þeim í Bosníu. Dugar þriggja marka forskot til að komast í undanúrslit í Bosníu?

„Já ég held það. Ef við náum aftur upp góðri stemmningu í liðinu og góðum leik þá held ég að við getum alveg sjokkerað þá. Við eigum fullt erindi í undanúrslitin og ég hef bara bullandi trú á því að við náum því."

Svona strax eftir leik. Hvað finnst þér að þínir leikmenn þurfi að laga gegn þeim áður en þið mætið þeim í Bosníu öðru sinni?

„Ég held við þurfum aðalega að stoppa þessi þungu mörk sem þeir voru að skora þegar höndin var komin upp og þeir komnir í klemmu. Þeim tekst að skora of mörg svoleiðis mörk. Síðan væri þurfum við að ná markvörslunni góðri í 60 mínútur. Hún var frábær í fyrri hálfleik en datt aðeins niður í seinni.

Að lokum vorum við kannski aðeins of höktandi sóknarlega síðasta korterið. Ef við lögum þetta þá held ég að við getum alveg komist áfram í undanúrslitin," sagði Ásgeir Örn í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert