Björgvin Páll Gústavsson, landsliðsmarkvörður í handbolta, og Arnar Daði Arnarsson, aðstoðarþjálfari Stjörnunnar, hafa báðir tjáð sig um ummæli sem Kára Árnason lét falla eftir fyrri leik Kósovó og Íslands í umspili Þjóðadeildarinnar í fótbolta á fimmtudaginn.
Leiknum lauk með sigri Kósovó í Pristínu, 2:1, en liðin mætast á nýjan leik í Murcia á Spáni á morgun þar sem sæti í B-deild Þjóðadeildarinnar er undir en tapliðið í einvíginu fellur í C-deild.
Eftir leikinn var rætt um kosti þess og galla að falla í C-deildina og vildu einhverjir meina að það gæti verið auðveldara fyrir íslenska liðið að komast í lokakeppni Evrópumótsins, ef liðið væri í C-deild.
„Þú þarft að verðskulda það að fara á EM og það er ekki jafn sætt, ef þú ferð ekki einhverja alvöru leið,“ sagði Kári í myndveri Stöðvar 2 Sport.
„Þá verður þetta bara pínu eins og handboltinn, þar sem er stórmót á hverju einasta ári. Það er alveg gaman því þetta er í leiðinlegasta mánuði ársins og þá horfa allir á þetta. Þetta á að vera afrek,“ bætti Kári við.
„Áfram Ísland“ skrifaði Björgvin Páll við færslu sem hann birti á samfélagsmiðlinum X þar sem hann deildi ummælum Kára.
Arnar Daði tekur í sama streng og Björgvin Páll og deilir færslu íslenska markvarðarins.
„Enn einn litli kallinn mættur til að upphefja sína íþrótt með því að miða sig við þjóðaríþróttina. Kári Árnason litli kall,“ bætti Arnar Daði við.
Margir hafa tekið upp hanskann fyrir handboltann í ummælum við færslurnar sem má sjá hér fyrir neðan.