Naumt tap Vals í Slóvakíu

Valskonur fögnuðu sigri á Slavia Prag frá Tékklandi í átta …
Valskonur fögnuðu sigri á Slavia Prag frá Tékklandi í átta liða úrslitum Evrópubikarsins á dögunum. mbl.is/Ólafur Árdal

Valur mátti þola 25:23-tap gegn Michalovce frá Slóvakíu í fyrri leik liðanna í undanúrslitum Evrópubikars kvenna í handbolta í dag.

Seinni leikur liðanna fer fram á Hlíðarenda eftir viku.

Heimakonur byrjuðu viðureignina betur og voru snemma leiks þremur mörkum yfir, 4:1. Valur náði að jafna metin, 4:4, þegar fyrri hálfleikur var rúmlega hálfnaður og tók Michalovce leikhlé í kjölfarið.

Þá tók við góður kafli heimakvenna sem skoruðu 10 mörk gegn fjórum mörkum Vals. Staðan í hálfleik var því 14:8 fyrir Michalovce.

Valskonur byrjuðu síðari hálfleikinn af krafti og náðu að minnka muninn í tvö mörk, 16:14, þegar rúmar tíu mínútur voru liðnar af honum.

Í kjölfarið var mikið jafnræði með liðunum sem skiptust á að skora. Þegar fimm mínútur voru eftir af leiknum náði Valur að jafna metin, 22:22.

Michalovce átti hins vegar góðan lokasprett og vann leikinn að lokum með tveimur mörkum, 25:23.

Þórey Anna Ásgeirsdóttir var markahæst í leiknum en hún skoraði sjö mörk fyrir Val. Í liði Michalovce skoruðu Veronika Habankova og Patricia Wollingerova fimm mörk hvor.

Hafdís Renötudóttir átti stórleik í marki Vals en hún varði 17 skot eða var með um 40,5% markvörslu.

Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

Michalovce 25:23 Valur opna loka
60. mín. Lovísa Thompson (Valur) skoraði mark
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert