„Bara takk!“

Ásbjörn Friðriksson brýst í gegn í kvöld.
Ásbjörn Friðriksson brýst í gegn í kvöld. Ljósmynd/Kristinn Steinn

„Þetta er frábær tilfinning. Fyrri hálfleikur var frábær og við kláruðum þetta í seinni. Það var kannski óþarfi að slaka svona mikið á og vinna bara með fjórum,“ sagði Ásbjörn Friðriksson leikmaður FH spurður út í þá tilfinningu að vera deildarmeistari í handknattleik annað árið í röð.

FH liðið spilaði oft á tíðum frábærlega gegn ÍR í Kaplakrika í kvöld og komst tvisvar sinnum 10 mörkum yfir í leiknum. Spurður nánar út í leikinn sagði Ásbjörn þetta:

„Við áttum að vinna þetta með 7-8 mörkum en þeir gerðu okkur erfitt fyrir þegar við ætluðum að fara láta þetta bara rúlla hjá okkur. Við vorum með sama upplegg og hefur reynst okkur vel í vetur sem er að bera virðingu fyrir varnarleiknum okkar, spila góða vörn.

Við náðum að halda okkur fullmannaðir í vörninni og fengum engar tvær mínútur í leiknum. Hraðaupphlaupin okkar kaffærðu þá síðan þegar við erum að keyra fram úr þeim. Síðan slúttum við sóknunum okkar vel og alltaf með skoti. Erum fljótir í vörn.

Síðan erum við kannski full værukærir þegar við erum komnir 10 mörkum yfir í seinni hálfleik en þetta er bara geggjað að fá fullt af fólki í húsið og spila leik sem við urðum að vinna og með bikarinn á okkar heimavelli.

Við þurftum að vinna síðustu 6 leikina í deildinni til að verða deildarmeistarar. Valur og Fram veittu okkur svo sannarlega harða samkeppni og okkur tókst þetta. Ég er bara hrikalega stoltur af því að við tókum síðustu 6 leikina.“

Þetta hlýtur að vera sérlega sætt í ljósi þess að það voru að heyrast raddir um að FH væri farið að gefa eftir og ætti litla möguleika á að ná árangri eftir áramót. Hvað hefur þú að segja við þessar raddir?

„Bara takk! Ég skil þá samt alveg. Við fengum nýjan leikmann eftir áramót og misstum Ingvar út og Gústa líka sem kom síðan aftur inn. Við vissum alveg að þetta myndi þéttast hjá okkur þegar við fengjum leikmennina okkar nokkuð heila aftur. Þá gekk okkur vel. Spámennirnir eru bara að dæma út frá því sem þeir hafa séð.

Núna er bara næsta keppni og við erum búnir að vera að slípa okkur til eftir áramót ef við ætlum okkur einhverja hluti í úrslitakeppninni,“ sagði Ásmundur eða Fógetinn eins og hann er oft kallaður hér í Hafnarfirði í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert