Grótta í umspil – ljóst hvaða lið mætast

Grótta þarf að spila um sæti í úrvalsdeildinni.
Grótta þarf að spila um sæti í úrvalsdeildinni. mbl.is/Eyþór

Grótta endar í 11. og næstneðsta sætinu í úrvalsdeild karla í handknattleik með því að tapa fyrir Aftureldingu, 25:28, í lokaumferð deildarinnar á Seltjarnarnesi í kvöld og þarf þar með að fara í umspil um áframhaldandi sæti í deildinni.

Grótta vann sér inn 11 stig en ÍR heldur sæti sínu. Breiðhyltingar unnu sér inn 13 stig og hafna í tíunda sæti. Afturelding hafnar í þriðja sæti með 31 stig.

Grótta fer í umspil með liðunum í öðru til fjórða sæti 1. deildar, um eitt sæti í úrvalsdeildinni.

Fram hafnar í fjórða sæti eftir að hafa tapað fyrir Stjörnunni í Garðabæ, 31:29, í kvöld. Stjarnan hafnar í sjöunda sæti með 22 stig.

ÍBV vann þá HK örugglega, 34:28, og tryggði sér sjötta sætið, þar sem Eyjamenn unnu sér inn 23 stig. HK endaði í áttunda sæti með 16 stig.

Valur tapaði á heimavelli

Haukar lögðu Val að velli, 35:33, á Hlíðarenda og var fyrir fram ljóst að Hafnarfjarðarliðið myndi hafna í fimmta sæti en gerir það með 27 stig.

Valur hafnar í öðru sæti með 32 stig.

Loks vann KA botnlið Fjölnis, 33:29, í Grafarvogi í þýðingarlausum leik.

KA hafnar í níunda sæti með 15 stig og Fjölnir endar á botninum með átta stig og var fyrir nokkru síðan fallinn niður í 1. deild.

Athyglisverðir slagir

Þar sem keppni er nú lokið í deildinni er ljóst hvaða lið mætast í fyrstu umferð úrslitakeppninnar um Íslandsmeistaratitilinn.

Eftirfarandi lið mætast:

FH – HK
Valur – Stjarnan
Afturelding - ÍBV
Fram - Haukar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert