Baldur Fritz Bjarnason átti frábæran leik fyrir ÍR í tapi gegn deildarmeisturum FH í handknattleik í Kaplakrika í kvöld.
Baldur skoraði 10 mörk, þar af 3 úr vítum og var prímusmótorinn í sókn ÍR. Þrátt fyrir tapið sleppa ÍR-ingar við fall eða umspil og eru öruggir með sæti í úrvalsdeildinni á næsta tímabili. Hann er aðeins 18 ára gamall og stendur uppi sem markakóngur deildarinnar með 211 mörk í 22 leikjum.
Spurður út í þá tilfinningu að vera sloppinn við fall sagði Baldur þetta:
„Það er bara frábært að sleppa við umspil. Markmiðið var alltaf að halda okkur uppi. Núna höfum við fimm mánuði til að æfa og styrkja okkur fyrir næsta tímabil og við byrjum strax í næstu viku að undirbúa næsta tímabil. Ég er mjög ánægður með það og að sleppa við auka mánuð í umspili.“
Þú skorar 10 mörk í leiknum og Bernard er með 9 mörk. Samtals eruð þið tveir með 19 af 29 mörkum ÍR í leiknum. Vantaði framlag frá fleiri leikmönnum í kvöld?
„Nei alls ekki. Við vorum bara að hitta á okkar dag. Það geta ekki allir skorað mörkin og aðrir leikmenn voru bara í öðrum hlutverkum.“
ÍR lendir 10 mörkum undir í tvígang í seinni hálfleik. Eftir ágætis byrjun ÍR þá yfirtekur FH leikinn og þið sjáið aldrei til sólar. Hvað veldur því?
„Þeir eru bara með frábært lið og refsa fyrir öll mistök sem við gerum. Hver tæknifeill hjá okkur var mjög dýr og á sama tíma voru mistökin hjá þeim nánast engin.“
Verður þú áfram í ÍR á næsta tímabili?
„Já að sjálfsögðu.“
Hvaða væntingar hefur þú til næsta tímabils í ljósi þess að þið komist hjá falli og umspili?
„Þetta tímabil var mjög dýrmæt reynsla. Við munum koma miklu betri til leiks á næsta tímabili. Læra af þessu sem er að klárast og byggja ofan á það,“ sagði Baldur í samtali við mbl.is.