Ólafur Andrés Guðmundsson var í stóru hlutverki hjá Karlskrona í kvöld þegar liðið vann mikilvægan útisigur á Sävehof í átta liða úrslitunum um sænska meistaratitilinn í handknattleik.
Karlskrona vann leikinn, 36:30, og svaraði með því fyrir ósigur á heimavelli í fyrsta leik liðanna þannig að staðan er nú 1:1 og minnst fjóra leiki þarf til að gera út um einvígið.
Ólafur var næstmarkahæstur í liði Karlskrona með sex mörk og var kominn með þau strax um miðjan síðari hálfleik. Dagur Kristjánsson náði ekki að skora fyrir Karlskrona og ekki heldur Tryggvi Björnsson fyrir Sävehof.
Karlskrona er á heimavelli í þriðja leik liðanna á mánudaginn.