Valskonur tryggðu sér í kvöld deildarmeistaratitilinn í úrvalsdeild kvenna í handknattleik með því að vinna auðveldan útisigur á botnliði Gróttu í næstsíðustu umferð deildarinnar, 30:19.
Valur er með 36 stig en Fram, sem vann ÍBV í Úlfarsárdal, 29:22, er með 34 stig. Vegna innbyrðis úrslita eru Valskonur þegar búnar að vinna deildina þó ein umferð sé eftir.
Lovísa Thompson og Þórey Anna Ásgeirsdóttir voru markahæstar hjá Val með sex mörk hvor. Hafdís Renötudóttir varði 17 skot í markinu. Katrín S Thorsteinsson skoraði sjö fyrir Gróttu.
Í Úlfarsárdalnum var Steinunn Björnsdóttir markahæst hjá Fram með sjö mörk og Berglind Þorsteinsdóttir og Harpa María Friðgeirsdóttir gerðu fimm hvor. Birna Berg Haraldsdóttir og Britney Cots gerðu fimm hvor fyrir ÍBV.
Haukar höfðu betur gegn ÍR, 26:19. Er orðið ljóst að Haukar enda í þriðja sæti en liðið er með 32 stig. ÍR er í fimmta sæti með 15.
Elín Klara Þorkelsdóttir skoraði sjö mörk fyrir Hauka og Sara Dögg Hjaltadóttir var með sex fyrir ÍR.
Fallbaráttan verður ekki útkláð fyrr en í lokaumferðinni þar sem Stjarnan tapaði fyrir Selfossi á heimavelli, 30:26
Landsliðskonurnar Perla Ruth Albertsdóttir og Katla María Magnúsdóttir voru markahæstar hjá Selfossi. Perla gerði níu mörk og Katla sex. Embla Steindórsdóttir skoraði tíu fyrir Stjörnuna.
ÍBV og Stjarnan eru með 10 stig hvort og Grótta 8 en annað hvort ÍBV eða Stjarnan kemst í úrslitakeppnina, næstneðsta liðið fer í umspil og neðsta liðið fellur.