Erum ótrúlega spenntar

Elín Rósa Magnúsdóttir og Thea Imani Sturludóttir fagna sigri á …
Elín Rósa Magnúsdóttir og Thea Imani Sturludóttir fagna sigri á Málaga. mbl.is/Hákon

„Við erum ótrúlega spenntar og tilbúnar að takast á við þetta,“ sagði Elín Rósa Magnúsdóttir, landsliðskonan í liði Vals, í samtali við mbl.is.

Valur mætir slóvakíska liðinu Michalovce í seinni leik liðanna í undanúrslitum Evrópubikars kvenna í handbolta á Hlíðarenda á sunnudag klukkan 17.30. Valur tapaði fyrri leiknum á útivelli, 25:23, og verður því að vinna upp tveggja marka forskot til að fara áfram.

„Möguleikarnir eru mjög flottir. Við vorum aðeins að finna okkur í fyrri hálfleiknum í fyrri leiknum. Við lendum sjö mörkum undir og það fór orka og tími í að vinna það upp. Ef við byrjum vel eru möguleikarnir talsverðir,“ sagði Elín.

Slóvakíska liðið komst sjö mörkum yfir í upphafi seinni hálfleiks en þá tók við glæsilegur kafli Valsliðsins, sem jafnaði þegar skammt var eftir.

„Svona einvígi eru fjórir hálfleikar og það var bara einn fjórði búinn. Við hugsuðum það þannig og settum í næsta gír. Sjö mörk er ekki mikill munur þegar það er einn og hálfur leikur eftir,“ sagði hún.

Spennandi verkefni fram undan

Valur hefur farið erfiða leið í keppninni til þessa og m.a. unnið Spánarmeistarana fræa 2023 í Málaga. Michalovce er þó sterkasta liðið til þessa.

„Þær eru með marga mjög góða leikmenn. Þetta er jafnt lið, með góða leikmenn í öllum stöðum. Þetta er besta liðið hingað til og við megum ekkert slaka á.“

Elín gengur í raðir þýska félagsins Blomberg-Lippe eftir tímabilið og er því að leika sína síðustu leiki fyrir íslenskt félagslið, í bili hið minnsta.

„Maður tekur einn leik í einu þótt það séu mörg spennandi verkefni fram undan. Við náðum í einn titil á fimmtudag og nú eru tveir eftir. Maður verður samt að halda sér niðri á jörðinni,“ sagði Elín.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka