Fórna tíma með börnunum

Hildigunnur Einarsdóttir
Hildigunnur Einarsdóttir mbl.is/Eggert Jóhannesson

Valur mætir slóvakíska liðinu Michalovce í seinni leik liðanna í undanúrslitum Evrópubikars kvenna í handbolta á Hlíðarenda á morgun klukkan 17.30. Valur þarf að vinna upp tveggja marka forskot til að fara í úrslit, því slóvakíska liðið vann 25:23-heimasigur í fyrri leiknum.

Liðsmenn Vals hafa fært miklar fórnir til að láta Evrópuævintýrið ganga upp, því það er bæði tímafrekt og kostnaðarsamt.

„Það eru allir með handboltann númer eitt hjá sér í vetur og það hefur gengið vel, líka í Evrópu. Það fer mjög mikill tími í handboltann núna. Það er mikið af æfingum, fundum og leikjum og lítið um frí.

Mömmurnar fórna tíma með börnunum og fólk þarf að breyta vinnunni sinni fyrir þetta en það eru allir tilbúnir að leggja hönd á plóg og láta þetta ganga upp. Það eru allir tilbúnir að færa fórnir til að ná árangri í vetur,“ sagði línukonan reynslumikla Hildigunnur Einarsdóttir við Morgunblaðið.

Hildigunnur starfar hjá Lögreglunni á Suðurnesjum meðfram því að spila handbolta. Hún var lítið sofin á meðan á viðtalinu stóð og hefur ósjaldan mætt lítið sofin í stóra leiki.

„Það er best að gleyma sér í því sem maður er að gera. Þá getur maður gleymt næturvöktunum og þreytunni. Þegar maður lifir í núinu og nýtur þess þá gleymist allt annað. Þú skilur allt eftir utan vallar á meðan þú ert inni á vellinum. Það hugarfar hefur virkað fyrir mig þegar ég spila leiki stuttu eftir næturvaktir,“ sagði Hildigunnur.

Ítarlegt viðtal við Hildigunni má sjá á íþróttasíðum Morgunblaðsins sem kom út í morgun.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert