Haukar eru úr leik í Evrópubikar karla í handbolta eftir skell gegn Izvidac frá Bosníu í seinni leik liðanna í átta liða úrslitum í kvöld, 33:26.
Haukamenn unnu fyrri leikinn með þremur mörkum en það dugði skammt, þar sem Izvidac vann einvígið 60:56 samanlagt.
Liðin skiptust á að skora fyrstu sex mörk leiksins en eftir það náðu heimamenn undirtökunum og komust í 6:3 og í kjölfarið í 10:5. Var munurinn fimm mörk í hálfleik, 13:8.
Heimamenn voru mun sterkari framan af í seinni og var staðan orðin 21:12 þegar seinni hálfleikur var tæplega hálfnaður. Voru Haukar aldrei líklegir til að koma sér almennilega inn í einvígið á nýjan leik eftir það.
Össur Haraldsson skoraði sex mörk fyrir Hauka, þar af tvö úr vítum. Hergeir Grímsson gerði fimm og Skarphéðinn Ívar Einarsson fjögur. Aron Rafn Eðvarðsson varði 13 mörk í marki Hauka.