Hefur mikla þýðingu fyrir íþróttalífið á Akureyri

Halldór Örn Tryggvason, þjálfari Þórs.
Halldór Örn Tryggvason, þjálfari Þórs. mbl.is/Arnþór Birkisson

Halldór Örn Tryggvason þjálfari Þórs á Akureyri gerði liðið að deildarmeisturum í næstefstu deild í handbolta í dag þegar liðið vann HK 2, 37:29, á heimavelli í kvöld.

Þeir sleppa því við umspilið og fara beint upp í deild þeirra bestu að ári.

„Ég get ekki lýst þessu. Þetta er óþrjótandi vinna sem við höfum verið í, að byggja upp þetta lið. Þetta er geggjað lið, geggjuð vinna, geggjaðir strákar og geggjuð stjórn. Það er allt gott við þetta, ég gæti ekki verið ánægðari,“ sagði Halldór í viðtali við mbl.is eftir leikinn gegn HK 2 í kvöld.

„Þetta var eina markmiðið. Við ætluðum upp, við ætluðum bara að vinna deildina. Við sögðum þetta frá byrjun og frá fyrstu mínútu og hér erum við í dag.”

KA er þegar í bestu deild og á næsta tímabili verða tvö lið frá Akureyri í úrvalsdeild í handbolta.

„Þetta hefur stóra þýðingu fyrir íþróttalífið á Akureyri. Nágrannaslagur Þórs - KA á næsta ári, það er bara geðveikt. Þið sjáið alla Þórsarana sem mættu í dag svo bladiði KA-mönnum í þetta og þetta verður ótrúlegt. Við byrjum næsta tímabil bara strax í næstu viku. 

Þór er þannig félag að það á að vera í efstu deild. Næstum sama hvaða íþrótt sem það er. Núna bíð ég eftir því að fótboltinn fylgi okkur eftir, engin pressa en ég vil sjá þá í efstu deild.“ 

Á næsta ári verður liðið í deild þeirra bestu en í kvöld ætlar liðið að njóta þess að hafa unnið deildina. 

„Ég er bara að njóta og lifa. Við erum alltaf að spá í því sem við getum gert betur en í dag og í kvöld ætlum við bara að njóta.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka