Þór tryggði sér í dag sæti í úrvalsdeild karla í handbolta í fyrsta skipti frá árinu 2021 með sannfærandi heimasigri á varaliði HK, 37:29, í lokaumferð 1. deildarinnar.
Með sigrinum fór Þór upp í 28 stig og upp fyrir Selfoss, sem var í toppsætinu fyrir daginn með 27 stig. Selfoss fer því í umspil en Selfoss féll úr efstu deild á síðasta tímabili.
Í undanúrslitum umspilsins mætast Grótta og Hörður annars vegar og Selfoss og Víkingur hins vegar. Sigurliðin leika svo til úrslita um eitt sæti í úrvalsdeildinni.
Fyrrverandi atvinnu- og landsliðsmaðurinn Oddur Grétarsson lék vel fyrir Þór og skoraði tíu mörk. Hafþór Már Vignisson gerði átta. Ingibert Snær Erlingsson skoraði átta fyrir HK-inga.
Mörk Þórs: Oddur Gretarsson 10, Hafþór Már Vignisson 8, Þórður Tandri Ágústsson 7, Halldór Kristinn Harðarson 4, Arnór Þorri Þorsteinsson 4, Bjartur Már Guðmundsson 2, Garðar Már Jónsson 1, Sigurður Ringsted Sigurðsson 1.
Varin skot: Kristján Páll Steinsson 15.
Mörk HK: Ingibert Snær Erlingsson 8, Örn Alexandersson 6, Kristófer Stefánsson 4, Elmar Franz Ólafsson 4, Mikael Máni Jónsson 3, Styrmir Hugi Sigurðarson 2, Pálmar Henry Brynjarsson 1, Felix Már Kjartansson 1.
Varin skot: Patrekur Guðni Þorbergsson 16.