Erlangen vann í kvöld nauðsynlegan sigur á botnliði Potsdam í botnslag efstu deildar Þýskalands í handbolta, 26:23, á útivelli.
Viggó Kristjánsson lék sinn annan leik með Erlangen síðan hann kom til félagsins frá Leipzig um áramótin og var markahæstur með átta mörk.
Er landsliðsmaðurinn nýkominn af stað eftir meiðsli en hann var ekki með íslenska liðinu í tveimur leikjum gegn Grikklandi fyrr í mánuðinum.
Erlangen er enn í næstneðsta sæti deildarinnar en nú með átta stig, tveimur stigum frá öruggu sæti. Potsdam er á botninum með aðeins tvö stig.