Alveg skítsama

Ágúst Þór Jóhannsson.
Ágúst Þór Jóhannsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Númer 1, 2 og 3 er þetta stórkostleg frammistaða hjá liðinu og stórbrotin.“ - Sagði Ágúst Þór Jóhannsson þjálfari Vals eftir sigur á slóvakíska liðinu MSK Iuventa Michalovce og á sama tíma tryggja sér sæti í úrslitaeinvígi Evrópubikarsins.

Spurður nánar út í leikinn sjálfan sagði Ágúst þetta.

„Varnarleikurinn er frábær og við erum að setja þær í erfið skot undir pressu. Markvarslan var gjörsamlega frábær. Ég er hæstánægður með niðurstöðuna. Við náum að keyra fullt af hraðaupphlaupum og sóknarleikurinn er mjög agaður og flottur.“

Þið tapið leiknum úti með 2 mörkum og það var erfiður leikur. Þið vinnið þennan leik með 10 mörkum og voruð á tímabili 14 mörkum yfir. Þú verður að útskýra þennan getumun betur í ljósi þess að þið voruð að spila við atvinnumannalið. Hvað gafstu liðinu að borða í morgun? 

„Naglasúpa. Jú, það er rétt hjá þér að þær litu ekki vel út en það er af því að við vorum að spila frábærlega. Þetta er okkar besti leikur á tímabilinu ef ég á að segja þér eins og er. Það er oft með þetta lið sem ég er með að því stærri sem verkefnin verða því meira stíga þær upp. Við unnum Spánarmeistarana um daginn og núna vinnum við þetta lið sem er feikilega reynslumikið með atvinnumenn og landsliðsmenn. Þær bara áttu ekki brake í okkur.“

Þegar Ágúst var spurður að því í gríni hvort að þessi úrslit væru ekki í raun hræðileg í ljósi þess að með þessum stórsigri á atvinnumannaliði myndi Valur missa alla þessa góðu leikmenn erlendis í atvinnumennsku sagði Ágúst þetta brosandi.

„Það skiptir mig engu máli. Ég er að hætta með kvennaliðið og er því alveg skítsama.“ - sagði Ágúst hlæjandi og hélt síðan áfram. 

„Nei, ég er að djóka. Því fleiri sem komast út og nýta þessa glugga því betra. Valur stendur fyrir því að gefa sínum leikmönnum tækifæri á að komast út og ef þær fá tækifæri til þess þá hefur Valur aldrei staðið í vegi fyrir því að þær fái að fara, þannig að ef þær fá eitthvað spennandi þá er það bara frábært.

En við erum ekkert að hugsa um það núna. Við þurfum að fara undirbúa okkur fyrir næstu leiki. Það er mikil leikjatörn framundan og hefur verið mikil. Við erum að fara spila á fimmtudaginn á móti Stjörnunni og taka á móti deildarmeistaratitlinum. Við ætlum að mæta í það verkefni af fagmennsku og gera það vel. Síðan er það bara einn leikur í einu.“ 

Valur er deildarmeistari og núna tveir titlar í viðbót sem Valskonur geta unnið. Þið væntanlega ætlið ykkur þá báða?

„Já, að sjálfsögðu er það markmiðið. Fyrst að komast í undanúrslit í úrslitakeppninni og reyna að vinna Íslandsmeistaratitilinn. Síðan þegar þú ert kominn í úrslit í Evrópukeppni þá er auðvitað ekkert annað en að reyna að sækja þann titil. En þetta eru margir leikir framundan og við þurfum að spila þetta af skynsemi,“ sagði Ágúst í samtali við mbl.is.

Thea Imani Sturludóttir með boltann í kvöld.
Thea Imani Sturludóttir með boltann í kvöld. mbl.is/Hákon Pálsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka