„Tilfinningin er frábær og þetta er einhvern veginn ekki það sem maður reiknaði með þegar maður vaknaði í morgun.“ - sagði Sigríður Hauksdóttir, leikmaður kvennaliðs Vals, eftir stórkostlegan sigur á MSK Iuventa Michalovce í Evrópubikarnum í handbolta í dag. Með sigrinum eru Valskonur komnar í úrslitaeinvígi Evrópubikarsins.
Spurð nánar út í leikinn sagði Sigríður þetta.
„Þvílíkir yfirburðir í dag myndi ég segja. Það kom mér alveg á óvart, verð ég að viðurkenna, hversu auðveldar þær voru í ljósi þess hvernig leikurinn var úti og hvernig þær spiluðu þar.
Þetta er engan veginn það sem maður átti von á en á sama tíma vorum við hrikalega vel undirbúnar fyrir þennan leik. Við fórum mjög vel yfir það sem við hefðum getað gert betur í síðasta leik og löguðum það í dag þannig að þetta eru frábær úrslit.“
Hvað er það sem kemur þér helst á óvart í dag í þeirra leik í ljósi þess að þið tapið útileiknum með tveimur mörkum og eruð á tímabili í seinni hálfleik 14 mörkum yfir?
„Ég eiginlega veit það ekki. Þær voru mjög beittar úti en við vorum bara búnar að undirbúa allt sem gæti komið frá þeim. Síðan gerðist það bara að allt sem þær reyndu vorum við búnar að undirbúa vel og áttum svör við öllu hjá þeim.“
Þær fá þrjú rauð spjöld í þessum leik, allt gróf og ljót brot. Myndir þú skrifa þetta á pirring hjá þeim?
„Það eiginlega hlýtur að vera. Þær eru komnar 10-11 mörkum undir, búnar að ferðast hingað til Íslands í einhverja 15 klukkutíma þá gæti það verið. En þetta var alveg fáranlegt og bara ekki boðlegt hvernig þær brutu.“
Ágúst þjálfari sagði í einhverju viðtali að þetta lið væri með atvinnumenn í hverri stöðu. Valskonur eru ekki atvinnumenn í handbolta en vinnið samt með 10 mörkum og voruð mest 14 mörkum yfir. Þetta hljóta því að vera áhugaverð úrslit í handboltaheiminum, ekki satt?
„Jú að einhverju leyti, en það verður samt að segjast eins og er að deildin hérna heima er svokölluð semi-pro deild. Við erum að æfa hrikalega mikið þó að við séum í fullri vinnu og sumar okkar mæður. Þá held ég að við séum alveg að leggja alveg jafn mikið á okkur og mörk atvinnumannaliða þarna úti.“
Nú er úrslitaeinvígi framundan í Evrópubikarnum í maí en fram að því er Valur deildarmeistari og að fara spila í úrslitakeppninni. Verður þetta ekki of mikið álag á Valskonur?
„Við erum bara spenntar fyrir þessu og ætlum að gera allt sem við getum til að klára Evrópubikarinn. En þetta eru bara tveir leikir til viðbótar við prógrammið okkar og ég held að þetta verði ekkert of mikið,“ sagði Sigríður Hauksdóttir í samtali við mbl.is.