„Ég er gríðarlega spennt. Þetta verður skemmtilegur leikur og það er mikið undir. Það gerir þetta enn skemmtilegra,“ sagði Thea Imani Sturludóttir, landsliðskona í handbolta og leikmaður Vals, í samtali við mbl.is.
Valur mætir slóvakíska liðinu Michalovce í seinni leik liðanna í átta liða úrslitum í Evrópubikarnum á Hlíðarenda í dag klukkan 17.30. Valur þarf að vinna upp tveggja marka forskot eftir naumt tap í fyrri leiknum, en Valur lenti mest sjö mörkum undir.
„Ég tel möguleikana mjög góða. Þær eru mjög sterkar en við en við sýndum í seinni hálfleik í fyrri leiknum að við gátum miklu betur en við sýndum í fyrri hálfleiknum. Ef við höldum áfram að gera það sem við gerðum í seinni hálfleik í fyrri leiknum getum við náð góðum úrslitum,“ sagði Thea.
Hún sagði slóvakíska liðið sterkt en á góðum heimavelli Vals getur allt gerst.
„Þetta er klárlega eitt sterkasta liðið. Það er erfitt að bera saman lið en þær eru gríðarlega sterkar. Þær eru með öðruvísi leikstíl en við erum vanar að spila á móti. Þessir Evrópuleikir hafa verið rosalega skemmtilegir og byggt upp aukastemningu. Félagið á hrós skilið fyrir að halda svona vel utan um þetta. Ég hvet alla til að mæta,“ sagði Thea.