Valskonur komnar í úrslitaeinvígi Evrópubikarsins

Valskonur fá Michalovce í heimsókn.
Valskonur fá Michalovce í heimsókn. mbl.is/Óttar

Valskonur eru komnar í úrslitaeinvígi Evrópubikarsins í handbolta eftir sigur á slóvakíska liðinu MSK Iuventa Michalovce 30:20 á Hlíðarenda í dag og samanlagt með 8 marka mun en Valskonur töpuðu fyrri leiknum með tveimur mörkum.

Er þetta í fyrsta sinn sem íslenskt kvennalið kemst svo langt í Evrópukeppni í handbolta.

Valskonur byrjuðu leikinn af krafti og voru komnar 5:2 yfir eftir tæplega 7 mínútna leik. Gestunum tókst að minnka muninn í 5:4 en þá settu Valskonur aftur allt í gang og náðu góðu forskoti.

Þegar tæplega 18 mínútur voru liðnar af leiknum fékk Olga Peredeiy beint rautt spjald eftir slæmt brot á Þóreyju Önnu Ásgeirsdóttur en þá var staðan 9:7 fyrir Val.

Eftir þetta byggðu Valskonur upp gott forskot og má þar helst þakka frábærum markvörslum frá Hafdísi Renötudóttur sem varði 12 skot, þar af eitt vítaskot í fyrri hálfleik. 

Slóvakíska liðið var augljóslega ráðþrota gagnvart bæði sóknar- og varnarleik Valskvenna því þjálfari liðsins tók tvö leikhlé í fyrri hálfleik.

Þegar fyrri hálfleik lauk voru Valskonur 7 mörkum yfir í stöðunni 17:10.

Lovísa Thompson og Þórey Anna Ásgeirsdóttir skoruðu 4 mörk hvor í fyrri hálfleik fyrir Val en eins og fyrr segir varði Hafdís Renötudóttir 12 skot.

Emilia Kowalik og Patrícia Wollingerová skoruðu tvö mörk hvor fyrir Michalovce. Barbora Jakubiková varði 2 skot.

Valskonur voru tæplega þrjár mínútur að skora sitt fyrsta mark í seinni hálfleik. Það skipti engu máli því Hafdís Renötudóttir jafnaði það út með frábærum vörslum. 

Valskonur héldu áfram að byggja upp forskot og þegar 9 mínútur voru liðnar af seinni hálfleik var munurinn orðinn 10 mörk í stöðunni 22:12. Stuttu áður var öðrum leikmanni slóvakíska liðsins vísað út af með beint rautt spjald eftir ljótt brot á Elínu Rósu Magnúsdóttur. Var það Alena Dvorscáková sem fékk rauða spjaldið.

Það er í raun lítið annað að segja um þennan seinni hálfleik en að Valskonur gjörsamlega niðurlægðu andstæðing sinn, náðu 14 marka forskoti í stöðunni 27:13 og voru um 12 mínútur eftir af leiknum.

Þriðja rauða spjaldið fór á loft þegar um 10 mínútur voru eftir af leiknum þegar Jelena Klucková braut ansi illa á Elínu Rósu Magnúsdóttur þegar hún var að fara inn úr horninu. Öll brot gestanna voru ljót í dag og íþróttinni ekki til sóma. Myndi maður ætla að þarna hafi skapið algjörlega farið með gestina. 

Gestirnir reyndu eins og þeir gátu að klóra í bakkann en komust ekki lengra en raun ber vitni. Valskonur eru því komnar í úrslitaeinvígi um Evrópubikar kvenna í handbolta þar sem leiknir verða tveir leikir, heima og að heiman.

Þórey Anna Ásgeirsdóttir skoraði 8 mörk, þar af þrjú úr vítum, Thea Imani Sturludóttir skoraði 7 mörk. Hafdís Renötudóttir varði 19 skot, þar af eitt víti. Silja Muller Arngrímsdóttir varði 2 skot.

Livia Klucková skoraði 4 mörk, þar af eitt víti og varði Iryna Yablonska-Bobal 8 skot

Til hamingju Valskonur.

Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

Valur 30:20 Michalovce opna loka
60. mín. Michalovce skýtur framhjá
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka