Vilja vera fyrsta íslenska liðið í sögunni

Valskonur mæta slóvakíska liðinu í dag.
Valskonur mæta slóvakíska liðinu í dag. mbl.is/Óttar Geirsson

Ágúst Jóhannsson, þjálfari kvennaliðs Vals í handbolta, er spenntur fyrir seinni leiknum við slóvakíska liðið Michalovce í undanúrslitum Evrópubikarsins á Hlíðarenda klukkan 17.30. Valur tapaði fyrri leiknum naumlega, 25:23, og á fína möguleika á að fara í úrslit.

Valur tryggði sér deildarmeistaratitilinn með öruggum sigri á Gróttu á fimmtudagskvöld og nú tekur við erfiðara verkefni.

„Mér líður mjög vel. Ég er ánægður með að leikurinn við Gróttu sé yfirstaðinn og deildarmeistaratitillinn sé kominn. Nú getum við einbeitt okkur að þessum leik, sem við erum búin að hugsa um í heila viku. Við höfum fundað og æft vel og höfum verið að koma okkur í góðan gír.

Ágúst Þór Jóhannsson er spenntur fyrir leiknum.
Ágúst Þór Jóhannsson er spenntur fyrir leiknum. mbl.is/Ólafur Árdal

Það getur tekið eina mínútu að vinna þetta upp en líka að lenda fjórum mörkum undir. Það er þunn lína í þessu. Númer eitt hjá okkur er að spila betri varnarleik. Við fengum of mörg mörk á okkur beint í gegnum fríköst og seinni bylgju í fyrri leiknum.

Við þurfum svo að skila boltanum betur frá okkur en við gerðum í fyrri hálfleik. Þær eru með markvörð sem er gríðarlega öflug í að kasta boltanum yfir allan völlinn og því er gríðarlega mikilvægt að hlaupa vel til baka. Ef við náum að skila þessum atriðum vel þá er þetta góður möguleiki,“ sagði Ágúst við mbl.is.

Valur lenti mest sjö mörkum undir í fyrri leiknum en gerði vel í að jafna, áður en slóvakíska liðið var sterkara í blálokin.

Ágúst vill að stuðningsmenn fjölmenni á leikinn.
Ágúst vill að stuðningsmenn fjölmenni á leikinn. mbl.is/Ólafur Árdal

„Ég reyndi að pæla ekki of mikið í því. Einbeitingin var mikil og maður reyndi að hjálpa stelpunum að minnka muninn og lágmarka skaðann. Þetta voru erfiðar aðstæður á erfiðum útivelli og tvö mörk eru ekki mikill munur. Nú þurfum við að ná okkar bestu frammistöðu í seinni leiknum.

Þetta félag er gríðarlega öflugt, með mikla sögu og er félagið er bara með kvennalið. Þetta er stórt félag og við þurfum allan þann stuðning sem við getum fengið til að takast á við þær,“ sagði Ágúst, sem skorar á landsmenn að mæta á Hlíðarenda í góða dagskrá og vonandi sögulega stund fyrir íslenskan handbolta.

„Vonandi fjölmenna leikmenn annarra liða, þjálfarar, krakkar og allir sem fylgjast með handbolta á leikinn. Það verður frábær dagskrá hérna og með samstilltu átaki getum við stigið þetta skref að komast í úrslit. Það væri í fyrsta skipti í sögunni að íslenskt kvennalið færi alla leið í úrslit,“ sagði hann.

Mín stærsta ósk

Ágúst hættir með kvennalið Vals eftir tímabilið og tekur við karlaliðinu. Draumurinn er að leika til úrslita í Evrópukeppni áður en hann skilur við liðið.

„Tilfinningarnar eru blendnar. Ég er búinn að þjálfa þær lengi og er gríðarlega hungraður í að klára þetta. Ég vil ekkert meira en að komast í þennan úrslitaleik. Við munum gefa allt í þetta. Að klára þetta með fleiri titlum er mín stærsta ósk,“ sagði Ágúst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka