Handknattleikskonan Bergrós Ásta Guðmundsdóttir skrifaði nýverið undir nýjan tveggja ára samning við uppeldisfélag sitt KA/Þór og er nú samningsbundin því til sumarsins 2027.
Bergrós Ásta er aðeins 17 ára gömul en lék alla leiki KA/Þórs í 1. deild á tímabilinu þegar liðið tryggði sér sigur í deildinni og þar með sæti í úrvalsdeild á næsta tímabili.
„Bergrós Ásta er gríðarlega efnilegur leikstjórnandi en hún verður 18 ára síðar á árinu og tekur mikið til sín í leikjum, er gríðarlega sterk maður á móti manni og hefur gott auga fyrir línusendingum.
Með dugnaði og vinnusemi þá hefur hún tekið gríðarlega miklum framförum undanfarin ár og hefur verið í lykilhlutverki í meistaraflokksliði KA/Þórs undanfarin tvö tímabil,“ sagði meðal annars í tilkynningu á heimasíðu KA.
KA/Þór hefur verið duglegt við að framlengja samninga leikmanna liðsins fyrir átökin á meðal þeirra bestu á næsta tímabili.
Á undanförnum vikum hafa Matea Lonac, Rakel Sara Elvarsdóttir og Lydía Gunnþórsdóttir allar skrifað undir nýja samninga við KA/Þór.