Valur spilar fyrri leik sinn gegn spænska liðinu Porrino í úrslitum Evrópubikars kvenna í handknattleik í Porrino á Spáni.
Síðari leikurinn fer þar með fram á Hlíðarenda og því ljóst að Evrópubikar í keppni félagsliða mun í fyrsta skipti verða afhentur á Íslandi í vor.
Dregið var í höfuðstöðvum Handknattleikssambands Evrópu, EHF, í Vín í Austurríki í dag.
Valur varð um liðna helgi fyrsta íslenska kvennaliðið sem kemst í úrslitaleik í Evrópukeppni og á möguleika á að feta í fótspor karlaliðs Vals sem vann einmitt Evrópubikarinn á síðasta tímabili.
Fyrri leikurinn fer fram á Spáni 10. eða 11. maí og síðari leikurinn á Hlíðarenda 17. eða 18. maí.