Keflavík er komið í ansi góð mál í 8-liða úrslitum Íslandsmóts kvenna í körfubolta eftir góðan sigur á Tindastóli á Sauðárkróki í dag. Leiknum lauk með 12 stiga sigri Keflavíkur, 90:78, og leiðir liðið einvígið 2:0. Þriðji leikur liðanna fer fram í Keflavík á þriðjudaginn og þar munu heimakonur geta tryggt sér sæti í undanúrslitunum.
Fyrstu þrjú stig leiksins voru heimakvenna en næstu 11 voru hins vegar gestanna. Þá tók Israel Martin, þjálfari Tindastóls, leikhlé og við það vöknuðu hans konur aðeins til lífsins. Eftir nokkuð jafnan kafla voru það hins vegar gestirnir sem tóku öll völd á vellinum og þegar liðin gengu til búningsherbergja í hálfleik var munurinn kominn í 22 stig, 30:52.
Keflavík hélt svo uppteknum hætti og eftir tvær og hálfa mínútu í seinni hálfleik var munurinn kominn í 31 stig. Á þeim tímapunkti einkenndi mikið andleysi Tindastólsliðið sem virtist ekki hafa neina trú á verkefninu, en þegar leið á þriðja leikhlutann fóru hlutirnir þó heldur betur skánandi og skoruðu heimakonur 23 stig gegn 5 stigum Keflvíkinga áður en yfir lauk. Munurinn var því kominn niður í 14 stig fyrir fjórða leikhluta, 58:72.
Í fjórða leikhluta hélst munurinn í 10 til 15 stigum allan leikhlutann og gerðu Keflvíkingar nóg til að heimakonur fengu aldrei almennilegt blóð á tennurnar. Að lokum fór það svo að Keflvíkingar unnu 12 stiga sigur, 90:78, og eru því í kjörstöðu í einvíginu fyrir þriðja leik liðanna.
Hjá Tindastóli var Randi Brown allt í öllu sóknarlega en hún skoraði 23 stig, tók 10 fráköst og gaf 6 stoðsendingar. Brynja Líf Júlíusdóttir kom næst með 15 stig og 4 fráköst.
Hjá Keflavík var Jasmine Dickey stigahæst með 30 stig, 9 fráköst og 3 stoðsendingar. Sara Rún Hinriksdóttir kom næst með 25 stig, 6 fráköst og 4 stoðsendingar.