Íslenska kvennalandsliðið í handknattleik mun spila landsleikina tvo við Ísrael í umspili um sæti á HM í lok árs fyrir luktum dyrum.
Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá HSÍ.
Heimsmeistaramótið fer fram í Hollandi og Þýskalandi en umspilsleikirnir verða dagana 9. og 10. apríl hérlendis.
Vegna stríðsins fyrir botni Miðjarðarhafs gerði greiningasvið ríkislögreglustjóra áhættugreiningu í tengslum við leikina.
„Ríkislögreglustjóri ráðleggur Handknattleikssambandi Íslands að halda fyrirhugaða landsleiki við Ísrael fyrir luktum dyrum og án þess að auglýsa þá. Stjórn HSÍ hefur ákveðið að fara að þessum ráðum ríkislögreglustjóra enda hefur HSÍ ekki forsendur til að ganga gegn þeirri greiningarvinnu sem unnin hefur verið af embættinu.“ Þetta kemur fram í yfirlýsingu HSÍ.
„Það eru mikil vonbrigði að ekki sé hægt að leika þessa leiki með áhorfendum sem eru mikilvægur þáttur í þeim árangri sem stelpurnar hafa náð,“ stendur jafnframt í yfirlýsingunni en leikirnir verða sýndir á Rúv2.