Arnar Pétursson, landsliðsþjálfari kvenna í handbolta, var sáttur með 39:27-stórsigur Íslands gegn Ísrael í fyrri leik liðanna í umspili um sæti á lokamóti HM í lok árs á Ásvöllum í kvöld. Liðin mætast aftur á sama stað annað kvöld.
„Þetta var flott. Það var virkilega gott hvernig þær spiluðu fyrri hálfleikinn, sérstaklega. Ég er mjög ánægður með þær.
Mér leið ágætlega nær allan leikinn en ég hefði viljað klára seinni hálfleikinn betur. Heilt yfir er ég samt ánægður,“ sagði Arnar við mbl.is eftir leik.
Ísrael byrjaði seinni hálfleikinn á 4:1-kafla en eftir það var aftur komið að íslenska liðinu, sem vann afar sannfærandi sigur.
„Það var smá værukærð eftir hálfleikinn en þær svara því svo aftur og klára leikinn nokkuð sannfærandi. Ég er heilt yfir mjög ánægður með liðið. Þetta eru búnar að vera krefjandi aðstæður, sérstakt og skrítið. En þær komu allar tilbúnar og vel inn í þetta,“ sagði hann.
Aðstæðurnar sem Arnar lýsti sem krefjandi og skrítnum sneru að mótmælendum fyrir utan Ásvelli sem börðu á dyr keppnissalarins og trufluðu þannig leikinn. Var þá brugðið á það ráð að kveikja á tónlist meðan á leik stóð. Þá voru engir áhorfendur leyfðir á leiknum.
„Þetta var mjög sérstakt þegar það var verið að berja á hurðarnar. Svona verður þetta í þessu einvígi og vonandi lendum við ekki í þessu aftur. Þetta fer í reynslubankann. Það er dapurt að vera ekki með fólkið okkar í stúkunni á okkar heimavelli. Það er erfitt að sætta sig við þetta,“ sagði Arnar.