Valur tók á móti Aftureldingu í fyrsta leik liðanna í undanúrslitum Íslandsmóts karla í handbolta og lauk leiknum með sigri Vals 35:33 eftir framlengdan leik. Valur er því 1:0 yfir í einvíginu en þrjá sigra þarf til að komast í úrslitaeinvígið gegn annað hvort FH eða Fram.
Það var jafnt á öllum tölum mestan hluta fyrri hálfleiks. Afturelding leiddi þó leikinn og má kannski segja að Mosfellingar hafi verið örlítið betra liðið fyrstu 30 mínúturnar.
Afturelding náði mest þriggja marka forskoti í fyrri hálfleik í stöðunni 10:7. Valsmenn gáfust aldrei upp enda ekki þeirra stíll. Tókst þeim að jafna leikinn í stöðunni 12:12 en gestirnir frá Mosfellsbæ fóru með eins marks forskot í hálfleikinn og var staðan 13:12 fyrir Aftureldingu.
Það sem munaði kannski mestu á milli liðanna var mjög slæmur 10 mínútna kafli sóknarlega hjá Valsmönnum þar sem þeim tókst ekki að skora. Var sóknarleikur þeirra kærulaus þar sem reyndar voru furðulegar línu- og hraðaupphlaupssendingar svo eitthvað sé nefnt. Það sem bjargaði Valsmönnum á þessum tímapunkti var Björgvin Páll Gústavsson og það að leikmenn Aftureldingar voru heldur ekki iðnir við að skora í þessum kafla leiksins.
Valsmenn gátu jafnað leikinn í fyrstu sókn seinni hálfleiks. Það tókst ekki og náðu Mosfellingar tveggja marka forskoti í stöðunni 14:12. Valsmenn jöfnuðu leikinn í stöðunni 15:15 og fengu tækifæri til að komast yfir en það tókst ekki og virtist sem Valsmönnum ætlaði ekki að takast að ná forskoti í leiknum.
Valsmenn jöfnuðu leikinn aftur í stöðunni 18:18 eftir að hafa verið tveimur mörkum undir. Enn og aftur fengu Valsmenn tækifæri til að komast yfir í stöðunni 18:18 og loksins tókst það þegar Kristófer Máni Jónasson skoraði úr hægra horninu.
Eftir þetta var komið að Aftureldingu að elta í leiknum. Leikurinn varð ansi hraður og má segja að Valsmenn hafi loksins náð að spila sínar hröðu uppspilanir því mörkin komu á færibandi á báða bóga.
Valsmenn náðu tveggja marka forskoti í fyrsta skipti í leiknum með hraðaupphlaupsmarki hjá Úlfari Páli Monsa Þórðarsyni og staðan orðin 24:22 fyrir Val. Þá tók Gunnar Magnússon þjálfari Aftureldingar leikhlé enda ekki staðan sem hann vildi vera í á þessum tímapunkti.
Valsmenn náðu þriggja marka forskoti með marki frá Andra Finnssyni og staðan var 26:23 fyrir Val. Í stöðunni 26:24 misstu Valsmenn boltann og fengu Mosfellingar víti í kjölfarið. Vítið varði Björgvin Páll Gústavsson, gríðarlega mikilvæg varsla á þessum tímapunkti. Valsmenn fóru aftur í sókn og freistuðu þess að ná aftur þriggja marka forskoti en Magnús Óli Magnússon skaut yfir markið.
Aftur bjargaði Björgvin Páll því að Afturelding minnkaði muninn niður í eitt mark með því að verja frá Birgi Steini. Aftur fóru Valsmenn í sókn og Allan Norðberg kom Valsmönnum aftur þremur mörkum yfir í stöðunni 27:24. Í kjölfarið tók Gunnar Magnússon sitt þriðja og síðasta leikhlé enda staðan farin að vera svört fyrir Aftureldingu.
Þetta leikhlé hefur virkað því Mosfellingar skoruðu tvö mörk í röð frá Blæ Hinrikssyni og Harra Halldórssyni ásamt því að Einar Baldvin Baldvinsson varði skot frá Magnúsi Óla Magnússyni og munurinn var eitt mark í stöðunni 27:26.
Bjarni í Selvindi kom Valsmönnum í 28:26 en Afturelding var aldrei langt undan og tókst þeim að minnka muninn í 29:28 þegar 28 sekúndur voru eftir. Í kjölfarið fóru Mosfellingar í maður á mann og stálu boltanum í þann mund sem Óskar Bjarni var að biðja um leikhlé og fengu tækifæri til að jafna leikinn. Það tókst Aftureldingu þegar Blær Hinriksson skoraði og staðan 29:29.
Þegar 8 sekúndur voru eftir fékk Böðvar Páll Ásgeirsson 2 mínútna brottvísun og Valsmenn í sókn. Valsmenn tóku einfalda stimplun og var Kristófer Máni galopinn í hægra horninu en sendingin á hann var ekki nógu góð og misstu Valsmenn boltann. Þurfti því að framlengja leikinn.
Afturelding byrjaði framlenginguna og komst strax yfir með marki frá Halli Arasyni. Valsmenn klikkuðu á næstu tveimur sóknum sínum og komust Mosfellingar tveimur mörkum yfir áður en Viktor Sigurðsson minnkaði muninn í eitt mark í stöðunni 31:30 fyrir Aftureldingu. Staðan eftir fyrri hálfleik framlengingar var 31:30 fyrir Aftureldingu.
Valsmenn jöfnuðu leikinn strax í byrjun seinni hálfleiks framlengingar með marki frá Bjarna í Selvindi. Staðan var 31:31. Björgvin Páll varði síðan frá Halli Arasyni. Valsmenn brunuðu í sókn og kom Þorvaldur Örn Þorvaldsson Valsmönnum yfir í framlengingunni með sínu fyrsta marki í leiknum.
Blær Hinriksson jafnaði leikinn fyrir Aftureldingu strax í næstu sókn. Einar Baldvin varði síðan skot Viktors Sigurðssonar og gátu Mosfellingar aftur náð forskotinu í framlengingunni þegar 2 mínútur voru eftir af henni.
Það tókst ekki og náðu Valsmenn boltanum, brunuðu í hraðaupphlaup þar sem Úlfar Páll Monsi skoraði og kom Val 33:32 yfir. Afturelding skaut í slá strax í næstu sókn og komust Valsmenn tveimur mörkum yfir með marki frá Allan Norðberg. Mosfellingar náðu að minnka muninn með marki frá Ihor Kopyshynskyi en Bjarni í Selvindi kom Val í 35:33 og urðu það lokatölur leiksins.
Bjarni í Selvindi skoraði 9 mörk fyrir Val og varði Björgvin Páll Gústavsson 14 skot, þar af 2 vítaskot.
Blær Hinriksson skoraði 8 mörk fyrir Aftureldingu og varði Einar Baldvin Baldvinsson 15 skot.