Afturelding er undir í undanúrslitaeinvígi sínu gegn Val eftir tap á Hlíðarenda í framlengdum leik í kvöld. Gunnar Magnússon þjálfari Aftureldingar hafði þetta að segja um frammistöðu Aftureldingar þegar mbl.is ræddi við hann strax eftir leik:
„Ef ég dreg þetta saman þá er frammistaðan ekki nógu góð. Sóknarleikurinn innihélt rosalega slaka kafla. Auðvitað voru góðar sóknir inni á milli en ótrúlega margar slakar. Við vorum bara ekki líkir sjálfum okkur. Varnarlega vorum við góðir fyrstu 40 mínúturnar en síðan dettum við niður í seinni hálfleik. En heildarframmistaðan er bara ekki nógu góð og mér finnst við eiga helling inni. Við þurfum líka bara að gera betur til að vinna Val.“
Afturelding leiðir leikinn í 40 mínútur en byrjar síðan að elta í seinni hálfleik. Þið náið síðan að knýja fram framlengingu á ögurstundu. Í framlengingunni komist þið í mjög góða stöðu með tveggja marka mun. Síðan dettið þið aftur niður.
„Eigum við ekki bara að segja að síðustu þrjár mínútur framlengingarinnar hafi kórónað leikinn fyrir okkur með ákvörðunartökum, skotum og fleiru. Við vorum bara að kljást við það megnið af leiknum að vera sjálfum okkur verstir í þessum ákvarðanatökum. Þeir vinna bara leikinn á okkar mistökum í lokin.“
Næsti leikur er í Mosfellsbæ. Hvað þarf til að vinna Val þar?
„Við þurfum að laga hlaupin til baka, vera snarpari og sneggri til baka. Það er auðvitað erfitt þegar sóknarleikurinn er slakur þá notfærir gott lið eins og Valur sér það auðvitað. Þetta eru ótrúlega jöfn lið og góð bæði tvö. Þetta eru örfáar ákvarðanir sem skera úr um þetta. Við þurfum bara betri frammistöðu til að vinna Val og vera miklu skarpari í sóknarleiknum,“ sagði Gunnar í samtali við mbl.is.